Átök víða í Bandaríkjunum

Mótmælendur fyrir framan Hvíta húsið í gær.
Mótmælendur fyrir framan Hvíta húsið í gær. AFP

Til átaka hefur komið á milli mótmælenda og lögreglu í nokkrum borgum í Bandaríkjunum í nótt vegna drápsins á George Floyd fyrr í vikunni. Floyd, sem var óvopnaður svartur maður, lét lífið eftir að hafa verið handtekinn af lögreglumönnnum í Minneapolis, en einn lögreglumaður hélt honum niðri í margar mínútur með því að leggja hnéð á háls Floyds sem á endanum missti meðvitund og dó. 

Mörg hundruð manns söfnuðust saman fyrir framan Hvíta húsið í Washington en fólkið krafðist þess að réttlætinu verði fullnægt. Í gær var öryggisgæsla við húsið hert og er viðbúnaður mikill. 

Hér má sjá lögreglumann handtaka mótmælanda í borginni Detroit í …
Hér má sjá lögreglumann handtaka mótmælanda í borginni Detroit í Bandaríkjunum í gær. AFP

Til blóðugra átaka hefur komið í borgum á borð við Minnesota, New York og Atlanta, að því er segir á vef BBC.

Stund á milli stríða hjá lögreglumönnum í Minneapolis í Minnesota. …
Stund á milli stríða hjá lögreglumönnum í Minneapolis í Minnesota. Fyrir aftan þá má sjá skilaboð sem mótmælandi hefur skilið eftir. AFP

Fyrrverandi lögreglumaður í Minneapolis hefur verið handtekinn vegna málsins og er hann í haldi lögreglu ákærður fyrir manndráp.

Myndskeið voru tekin af því þegar lögreglumaðurinn Derek Chauvin, sem er hvítur, lá á hálsi Floyd sl. mánudag. Chauvin var rekinn úr starfi sem og þrír aðrir lögreglumenn. 

Lögreglukona sést hér eiga í samskiptum við mótmælendur og biður …
Lögreglukona sést hér eiga í samskiptum við mótmælendur og biður þá um að halda ró sinni. AFP

Chauvin er gert að mæta fyrir dómara í Minneapolis í fyrsta sinn á mánudag. 

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur tjáð sig um málið og segir að þetta hafi verið hræðilegt atvik. Hann kveðst hafa talað við fjölskyldu Floyds sem hann segir að sé afbragðsfólk.

Mikil reiði ríkir í Bandaríkjunum en þetta er ekki í fyrsta sinn þar, sem lögreglumenn valda dauða svartra Bandaríkjamanna. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert