Ummæli forsetans sögð hættuleg

Hershöfðinginn Martin Dempsey.
Hershöfðinginn Martin Dempsey. AFP

Annar fyrrverandi herforingi í Bandaríkjaher, Martin Dempsey, hefur stigið fram og gagnrýnd hótanir forseta Bandaríkjanna, Donald Trump, um að beita hernum gagnvart mótmælendum. 

Demps­ey, sem er fyrrverandi for­seti banda­ríska her­ráðsins, segir í viðtali við National Public Radio að ummæli Trump væru bæði hættuleg og til „mikilla vandræða“.

Tekur Dempsey þar undir með bæði núverandi og fyrrverandi varnarmálaráðherrum Bandaríkjanna. Ummælin lét Trump falla á mánudagskvöldið áður en hann lét mynda sig með biblíu í hönd fyrir utan kirkju í Washington. 

Mótmælt hefur verið í öllum ríkjum Bandaríkjanna og víðar á aðra viku vegna dráps lögreglumanns á svörtum manni, George Floyd, þegar verið var að handtaka hann.

Mótmælin hafa að mestu verið friðsamleg og í raun hefur mótmælendum fækkað í höfuðborginni en á sama tíma hefur öryggisviðbúnaður Hvíta hússins verið aukin til muna.

„Hugmyndin um að forsetinn taki á ástandinu með því að beita hernum veldur mér hugarangri,“ segir Dempsey í viðtalinu í gær. Að herinn yrði kallaður út til þess að ráða yfir og beita valdi gegn mótmælum sem hafa að mestu farið friðsamlega fram þrátt fyrir að einhverjir hafi nýtt sér tækifærið til að beita ofbeldi og að telja að það að kalla út herinn myndi róa ástandið er mjög hættulegt að mínu mati segir Dempsey ennfremur í viðtalinu við NPR.

Dempsey var forseti herráðsins í forsetatíð Barack Obama, 2011-15. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert