Skriða hreif veginn með sér

Stórt skarð hoggið í þjóðveginn gamla, E6.
Stórt skarð hoggið í þjóðveginn gamla, E6. Ljósmynd/Vatns- og orkumálastofnun Noregs

Aurskriða hreif með sér hluta þjóðvegarins E6 á Kråknesi í Finnmörku í Norður-Noregi í nótt. Aðeins eru tveir dagar frá því önnur skriða hreif með sér átta hús á svæðinum en vegir á svæðinu hafa verið lokaðir síðan þá.

Lögreglu barst tilkynning um skriðuna klukkan 01:47 aðfaranótt laugardags en Leo Johansen, lögregluþjónn í Finnmörku, segir í samtali vð norska ríkisútvarpið, NRK, að talið sé að skriðan hafi verið um 30-40 metra há og um 50 metrar á breidd. Engin hús eyðilögðust að þessu sinni og ekkert fólk var nærstatt enda svæðið fjarri alfaraleið. Talið er að skriðan gæti hafa fallið sólarhring áður en tilkynning barst þess efnis.

Ljósmynd/Vatns- og orkumálastofnun Noregs

Anders Bjordal, yfirverkfræðingur hjá Vatns- og orkumálastofnun Noregs (NVM), flaug dróna yfir svæðið í eftirmiðdaginn. „Maður sér skriðuna ekki frá neinu sjónarhorni nema úr dróna, en aðfaranótt föstudags hafði einn af vaktmönnum frá Securitas heyrt í skriðu og séð stórar bárur í sjónum,“ segir Bjordal við NRK.

Eyðileggingin var öllu meiri í skriðunni sem féll á miðvikudag.
Eyðileggingin var öllu meiri í skriðunni sem féll á miðvikudag. Ljósmynd/Vatns- og orkumálastofnun Noregs
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert