Norsk stríðsmynd í kórónuuppnámi

Úr kynningarefni um Orrustuna í Narvik, þýski tundurspillirinn Bernd von …
Úr kynningarefni um Orrustuna í Narvik, þýski tundurspillirinn Bernd von Arnim á hliðinni í tveggja mánaða rimmu vorið 1940 sem kölluð hefur verið „Pearl Harbor Noregs“ en einnig fyrsti ósigur Hitlers í Noregi. Ljósmynd/Nordisk Film

„Þetta yfirstígur allt sem ég hef komið nálægt og hefur verið mjög snúið, hvort tveggja fyrir verkefnið sjálft og starfsfólkið okkar sem missti vinnuna í einu vetfangi.“ Þetta segir Aage Aaberge, framleiðandi norsku kvikmyndarinnar Kampen om Narvik eða Orrustan um Narvik, við norska ríkisútvarpið NRK um þá martröð þegar hætta varð tökum eftir sjö daga vegna kórónufarsóttarinnar.

Kvikmyndin hefur verið lengi í bígerð, stóð reyndar til að taka hana upp að einhverju leyti í kvikmyndaverum í Póllandi hvort sem þær áætlanir standa eða ekki. Orrustan um Narvik í Ofoten í Nordland-fylki vorið 1940, fyrir réttum 80 árum, sem stundum hefur verið kölluð „Pearl Harbor Noregs“, var fyrsta stórorrustan í Noregi eftir hernám Þjóðverja og hófst reyndar sjálfan innrásardaginn 9. apríl þá um vorið eins og mbl.is rifjaði upp í umfjöllun um kvikmyndina og orrustuna 1. mars í fyrra.

Aaberge segir heilt ár af skipulagningu hafa farið í vaskinn á einu bretti þegar hætta varð tökum en þeim átti að ljúka 7. maí, fyrir rúmum mánuði, og frumsýning sett á jóladag sem Aaberge segir útilokað að gangi upp úr því sem komið er.

„Tjónið nemur 10,5 milljónum [150 milljónum íslenskra króna] og liggur víða,“ segir hann og nefnir sem dæmi að niðurfallnar tökur á upphafsatriði myndarinnar á Rjukan hafi þýtt að umskrifa þurfti byrjun myndarinnar í handriti, þótt hann ekki útskýri það nánar, en ætla má að þurft hafi vetrarlegra umhverfi á Rjukan en nú stendur til boða.

Sóttvarnareglur seinka tökum

Segir hann tjónsupphæðina meðal annars komna til vegna launa starfsfólks sem hafi átt rétt á greiðslum fyrir alla glataða tökudaga auk leigu á búnaði og húsnæði.

Þá setji sóttvarnareglur strik í reikninginn þar sem öll tökuvinna verði nú mun seinlegri vegna allra þeirra ráðstafana sem gera þurfi vegna faraldursins.

Úr kynningarefni kvikmyndarinnar. Norðmenn vörðu bæinn með kjafti og klóm …
Úr kynningarefni kvikmyndarinnar. Norðmenn vörðu bæinn með kjafti og klóm og höfðu sigur eftir tveggja mánaða bardaga með aðstoð herja bandamanna. Ljósmynd/Nordisk Film

Framleiðsla Orrustunnar um Narvik er ekki sú eina sem er í uppnámi, aðstandendur 34 norskra kvikmynda í framleiðslu hafa sótt um neyðarstyrki til Norsku kvikmyndastofnunarinnar, Norsk filminstitutt, NFI, og hlaupa styrkbeiðnir á bilinu 500.000 til fimm milljóna króna, 7,1 til 71 milljónar íslenskra.

Horfa til allrar virðiskeðjunnar

„Við höfum leyst mest aðkallandi vanda flestra sem voru í framleiðslu [þegar faraldurinn skall á],“ segir Kjersti Mo, forstöðumaður NFI, og bætir því við að með styrkjum stofnunarinnar hafi framleiðendum verið gert kleift að tryggja atvinnu fólks og hluta framleiðslukostnaðar.

„Þetta ætti að nægja fyrir mesta kostnaðinum en þarna er í mörg horn að líta þar sem við þurfum auðvitað að horfa til allrar virðiskeðjunnar í kvikmyndabransanum,“ segir Mo.

Aaberge segir styrkina mikinn létti, óvíst hafi ellegar verið um gerð myndarinnar yfir höfuð. Nú þurfi að færa frumsýningardag yfir á næsta ár og þá ekkert enn vitað um hvaða ljón verði í veginum í formi stórmynda frá Hollywood sem bítast þurfi við um hylli norskra kvikmyndahúsagesta.

NRK

Dagbladet (tökur að hefjast 3. mars)

Stavanger Aftenblad

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert