Mótmælendur lentu í átökum í London

Slagsmál á Trafalgar-torgi í dag.
Slagsmál á Trafalgar-torgi í dag. AFP

Mótmælendur sem tengjast hægriöfga-hreyfingum lentu í átökum við lögregluna í miðborg London í dag eftir að hafa safnast saman sem mótsvar við mótmælagöngu gegn kynþáttafordómum sem var haldin í gær.

Mótmælin voru haldin þrátt fyrir að yfirvöld höfðu hvatt fólk til að safnast ekki saman vegna samkomubanns í tengslum við kórónuveiruna.

Slösuðum manni fylgt í burtu af lögreglunni.
Slösuðum manni fylgt í burtu af lögreglunni. AFP

Þúsundir manna söfnuðust saman í miðborginni og sýndu myndir frá sjónvarpsstöðvum átök á milli sumra mótmælenda og lögreglunnar. Hlutum var kastað í átt að lögreglunni og högg látin dynja á henni.

Priti Patel, innanríkisráðherra Bretlands, sagði átökin vera algjörlega óásættanleg og sagði að þeir sem hafi gerst sekir um lögbrot verði að svara til saka vegna þess.

Til stuðnings Black Lives Matter á Trafalgar-torgi.
Til stuðnings Black Lives Matter á Trafalgar-torgi. AFP

Mótmælagöngunni gegn kynþáttafordómum tengd við Black Lives Matter-hópinn átti að vera haldin í dag en henni var flýtt til að hóparnir tveir myndu ekki mætast. Þrátt fyrir þetta söfnuðust nokkur hundruð aðgerðasinnar úr röðum Black Lives Matter saman í London í dag og lauk mótmælagöngunni á Trafalgar-torgi, þar sem þeir lentu í einhverjum átökum við hinn mótmælendahópinn.

BBC greinir frá því að mótmælendurnir í dag sem tengjast öfgahægri-hópum hafi viljað vernda sögufrægar styttur og minnisvarða í borginni, þar á meðal styttu af Winston Churchill á Parliament-torginnu.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert