Hrósað fyrir vasklega framgöngu í faraldrinum

Blaðamenn hlýða á Kayleigh McEnany, fjölmiðlafulltrúa Hvíta hússins, í síðasta …
Blaðamenn hlýða á Kayleigh McEnany, fjölmiðlafulltrúa Hvíta hússins, í síðasta mánuði. AFP

Samtökin Blaðamenn án landamæra (RSF) hrósa um 30 blaðamönnum ýmissa miðla fyrir baráttu sína fyrir sannleikanum um kórónuveirufaraldurinn og viðbrögð stjórnvalda um heim allan. Samtökin lofa meðal annars blaðamennina fyrir staðfestu sína í samskiptum við Donald Trump Bandaríkjaforseta.

Meðal þeirra fréttamanna sem sérstaklega eru nefndir eru Weijia Jing og Paula Reid frá CBS, Peter Alexander á NBC og Kristin Fisher á Fox News fyrir „heilindi og hæfni“ þeirra í starfi. Blaðamennirnir hafi viku eftir viku spurt Bandaríkjaforseta og embætismenn hans út í viðbrögð við faraldrinum.

Bloggarinn Fang Fang frá Wuhan fékk einnig lof, en hún hélt úti dagbók undir nafninu Boð frá borg í sóttkví þar sem hún rakti baráttu borgarinnar við veiruna, kínverskum stjórnvöldum til mikils ama. Fleiri blaðamenn, sem hafa verið handteknir, stungið í fangelsi og sætt ofsóknum, fengu einnig lof.

Þá gagnrýna samtökin bangladesk stjórnvöld vegna skopmyndateiknarans Ahmed Kabir Kishore sem á yfir höfði sér lífstíðarfangelsisdóm fyrir „að deila orðrómi og falsfréttum um kórónuveirufaraldurinn í landinu“. Segja samtökin að málið sé byggt á öryggislögum landsins sem minni á skáldverk eftir Kafka (e. kafkaesque). Landi hans Salim Akash situr í fangelsi í Jórdaníu fyrir umfjöllun um örlög bangladeskra farandverkamanna þar í landi á tímum veirunnar.

Samtökin nefna einnig Chris Buckley, blaðamann New York Times, en hann var neyddur til að yfirgefa Kína í síðasta mánuði eftir að hafa reitt kínversk stjórnvöld til reiði með umfjöllun sinni um faraldurinn í Wuhan, hvar hann varði 76 dögum þegar faraldurinn stóð sem hæst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert