Hélt að Finnland væri hluti af Rússlandi

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hélt að Finnland væri hluti af …
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hélt að Finnland væri hluti af Rússlandi. AFP

Í nýrri bók John Bolton, fyrrum þjóðaröryggisráðgjafa Donalds Trump Bandaríkjaforseta, kemur fram að rannsókn fulltrúardeildar Bandaríkjaþings á forsetanum hafi ekki náð yfir öll meint lögbrot forsetans. 

Í bókinni segir Bolton frá fjölmörgum tilfellum þess að forsetinn hafi reynt að hindra glæparannsóknir „til að gefa einræðisherrum sem honum líkaði við persónulega greiða,“ en fram kemur í frétt New York Times að Bolton vísi þar til rannsókna á meðal annars tyrkneskum og kínverskum stórfyrirtækjum. 

„Þetta mynstur leit út fyrir að vera þannig, að það að hindra framgang réttlætisins væri lífstíll, og við gátum ekki samþykkt það,“ skrifar Bolton. 

Þá segir hann að Trump hafi reynt að skapa viðskiptatengsl til að tryggja sinn eigin hag með því að biðja Xi Jinping, leiðtoga Kína, um að kaupa bandarískar landbúnaðarvörur til að tryggja að Trump sigri landbúnaðarríkin í forsetakosningum þessa árs. 

Rík­is­stjórn Don­alds Trump Banda­ríkja­for­seta bað í gær al­rík­is­dóm­ara um að fyr­ir­skipa Bolt­on að stöðva út­gáfu vænt­an­legr­ar bók­ar sinn­ar um starfs­tíma sinn í Hvíta hús­inu. 

Bókin er í fyrsta sæti metsölulista Amazon þrátt fyrir að vera enn óútgefin. Áætlað er að hún komi út næsta þriðjudag. 

Vissi ekki að Bretland byggi yfir kjarnorkuvopnum

„Þetta er nístandi frásögn um forseta sem er fávís um jafnvel grundvallar staðreyndir, móttækilegur fyrir augljósum fagurgala einræðislegra leiðtoga sem ráðskast með hann, gjarn á að halda fram ósönnum fullyrðingum, missir sig í orðljótum bræðiköstum og tekur vanhugsaðir ákvarðanir sem ráðgjafar hans þurfa að sjá um,“ segir blaðamaður NYT um bókina. 

Bolton segir forsetann til dæmis ekki hafa vitað að Bretland byggi yfir kjarnorkuvopnum og spurði hvort að Finnland væri hluti af Rússlandi. Þá segir í bókinni að Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hafi ekki haft neina trú á viðræðum Trump við leiðtoga Norður-Kóreu og haft um hann hnjóðsyrði við ýmis tilefni. „Hann er gjörsamlega úti á þekju,“ sagði Pompeo við Bolton eftir fund Trump og Kim Jong-un árið 2018. 

Bolton segir demókrata í fulltrúardeildinni, sem hófu rannsókn á forsetanum og ákærðu hann fyrir embættisbrot, hafa brugðist við meðferð málsins. Hann segir það hafa verið mistök að einblína á misbeitingu Trump á valdi með því að fá erlenda ríkisstjórn til þess að hafa áhrif á forsetakosningarnar. Þess í stað hefði átt að rannsaka samhliða vilja forsetans til að stíga inn í glæparannsóknir þar sem hann taldi sig eiga hagsmuna að gæta. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert