Bolton: Trump óskaði aðstoðar Xi við endurkjör

Það er ekki beint hlýtt á milli Johns Bolton og …
Það er ekki beint hlýtt á milli Johns Bolton og Donalds Trump. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti reyndi að fá Xi Jinping, forseta Kína, til að hjálpa Trump að tryggja sér endurkjör, að sögn Johns Bolton, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafa Bandaríkjanna, en þetta er eitt af því sem kemur fram í nýrri bók hans. CNN greinir frá þessu.

Í bókinni birtist frásögn Boltons af samskiptum forsetanna tveggja. Bolton segir að þegar Xi tjáði Trump í fyrra að hann væri að byggja fangabúðir vegna fjöldafangelsunar Uyghur-múslima hafi Trump hvatt Xi til dáða þar sem það að byggja búðirnar væri „nákvæmlega það rétta til að gera“.

Á G-20 leiðtogafundinum í fyrrra segir Bolton að Trump hafi snúið samtali Trumps og Xi yfir í samtal um komandi kosningar. Í samtalinu segir Bolton að Trump hafi lagt áherslu á „mikilvægi bænda og aukin kaup Kínverja á sojabaunum og hveiti í kosninganiðurstöðunum“. 

„Ótrúlega óupplýstur“ um rekstur Hvíta hússins

Bókin er ekki komin út en fjölmiðlamenn hafa fengið að skyggnast í hana. Bolton segir einnig að Trump hafi „haldið áfram að vera ótrúlega óupplýstur um það hvernig ætti að reka Hvíta húsið“.

Ríkisstjórn Trumps vinnur nú að því að koma í veg fyrir útgáfu bókarinnar og leitaði til alríkisdómara til að stöðva útgáfuna fyrr í vikunni. Bókin fjallar um starfs­tíma Boltons í Hvíta hús­inu en ríkisstjórnin vill meina að Bolton afhjúpi leynilegar upplýsingar í bókinni sem á að koma út næstkomandi þriðjudag.  

Í viðtali við Fox News á dögunum sagði Trump að Bolton birti „mjög leynilegar“ upplýsingar í bókinni án samþykkis og með því bryti hann lög. 

Bolton hóf störf hjá Hvíta húsinu í apríl 2018 og lauk störfum í september ári síðar. Bolton vildi meina að hann hefði sjálfur hætt en Trump sagðist hafa rekið Bolton vegna þess að hann væri „virkilega“ ósammála honum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert