Ein af hverjum 97

AFP

Ein af hverjum 97 manneskjum í heiminum hefur neyðst til þess að flýja heimili sitt. Aldrei áður hefur staðan verið jafn alvarleg að því er fram kemur í nýrri skýrslu Flótta­manna­stofn­unar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR). Færri og færri þeirra sem herkjast að heiman eiga nokkurn tíma möguleika á að snúa aftur heim. 

Skýrslan í heild

Eftir tvo daga er alþjóðlegur dagur flóttafólks en samkvæmt tölum UNHCR voru 79,5 milljónir jarðarbúa á vergangi í árslok 2019. Á tíunda áratugnum var því yfirleitt þannig farið að á hverju ári gátu um 1,5 milljón snúið aftur heim á hverju ári. Nú eru það aðeins 385 þúsund á ári. 

AFP

Flóttamannafulltrúi Sameinuðu þjóðanna UNHCR, Filippo Grandi, segir að ríki heims verði að horfa til breyttrar stöðu. Ekki sé boðlegt að milljónir búi við þann veruleika að eiga hvergi heima árum saman, án möguleika á að snúa aftur heim eða byggja upp framtíð á þeim stað sem það er nú. Íbúar heimsins verði að breyta viðhorfi sínu í garð fólks á flótta og reyna að koma á friði í þeim ríkjum þar sem stríð hefur geisað árum saman með öllum þeim hörmungum sem fylgja vopnuðum átökum.

„Við stöndum nú frammi fyrir breyttum aðstæðum þar sem nauðungarflutningar eru ekki aðeins algengari, heldur eru þeir ekki lengur aðeins skammvinnir eða tímabundið ástand,“ segir Grandi. „Ekki er hægt að ætlast til þess að fólk búi við óvissu um árabil og hafi hvorki möguleika á að fara heim til sín né von um að skapa sér líf á nýjum stað. Í grundvallaratriðum þurfum við að tileinka okkur nýtt og opnara viðhorf gagnvart öllum sem eru á flótta ásamt því að leggja aukinn kraft í að leysa átök sem standa yfir árum saman og eru orsök mikilla þjáninga.“ 

Filippo Grandi, framkvæmdastjóri UNHCR.
Filippo Grandi, framkvæmdastjóri UNHCR. AFP

Af þeim 79,5 milljónum sem hafa flúið heimili sín eru 45,7 milljónir á vergangi í eigin landi. Aðrir hafa neyðst til að flýja land. Af þeim eru 4,2 milljónir að bíða eftir svari við hælisumsókn og 29,6 milljónir eru flóttafólk. 

Sam­kvæmt skil­grein­ingu Flótta­manna­stofn­unar Sam­einuðu þjóðanna er: Flóttamaður er sá sem flýr land sitt og er utan heima­lands síns „af ástæðurík­um ótta við að verða of­sótt­ur vegna kynþátt­ar, trú­ar­bragða, þjóðern­is, aðild­ar í sér­stök­um fé­lags­mála­flokk­um eða stjórn­mála­skoðana, og get­ur ekki, eða vill ekki, vegna slíks ótta, færa sér í nyt vernd þess lands og get­ur þess vegna ekki eða vill ekki fara aft­ur þangað. Um rétt­ar­stöðu flótta­manna í flótta­manna­samn­ingi Sam­einuðu þjóðanna frá 1951.

Ann­ar hóp­ur­inn er hæl­is­leit­end­ur — fólk sem er utan heima­lands síns og nýt­ur alþjóðleg­ar vernd­ar, en bíður niður­stöðu um­sókn­ar sinn­ar um stöðu flótta­manns. Í lok árs 2019 voru 4,2 millj­ón­ir hæl­is­leit­enda í heim­in­um.

Þriðji og stærsti hóp­ur­inn, 45,7 millj­ón­ir, er fólk sem er á ver­gangi á öðrum svæðum inn­an síns eig­in heima­lands, hóp­ur sem gjarn­an er vísað til sem vega­laust fólk inn­an eig­in lands eða IDP (In­ternally Displaced People).

Við árslok 2018 voru 70,8 milljónir á flótta en þær tæpu níu milljónir sem hröktust að heiman í fyrra eru flestir frá Lýð­stjórn­ar­lýð­veldi­nu Kongó, Sa­hel-svæðinu í Afr­íku, Jemen og Sýrlandi — en þar hefur geisað stríð frá því í mars 2011 eða tæp tíu ár. Alls eru 13,2 milljónir Sýrlendinga á flótta innanlands sem utan.

Af þessu rúmlega 1% íbúa heimsins sem eru á flótta eru 30-34 milljónir barna og af þeim eru tugþúsundir fylgdarlaus á flóttanum. Sem dæmi má taka að börn á flótta eru fleiri en allir íbúar Ástralíu, Danmerkur og Mongólíu til saman. Þetta þýðir að 40%% þeirra sem eru á flótta eru börn. 

Á meðan er hlutfall fólks á flótta sem er 60 ára og eldra (fjögur prósent) langt undir hlutfalli þess hóps af íbúafjölda jarðar (12 prósent). Þessi tölfræði gefur hugmynd um þá sorg, örvæntingu og fórn sem fylgir aðskilnaði frá ástvinum, segir í fréttatilkynningu frá UNHCR.

Ábyrgð sem ríki taka á sig þegar kemur að því að veita flóttafólki aðstoð og stuðning er mismunandi. Til að mynda hafa ríkustu lönd heims aldrei tekið að sér að veita meira en 19% þeirra sem eru á flótta skjól. Í fyrra var hlutfallið 17%. Fátækustu ríki heims hafa aftur á móti veitt 20% þeirra sem eru á flótta skjól. Ríki sem eru þar á milli veita um 44% flóttafólks skjól sem og meirihluta þeirra íbúa Venesúela sem hafa neyðst til að flýja heimalandið.

AFP

Ef horft er til hlutfalls heildar, það er á íbúa, hafa flestir þeirra sem eru á flótta fengið skjól á Arúba. Líbanon er í öðru sæti og Curaçao í því þriðja. Síðan kemur Jórdanía í fjórða sæti og Tyrkland er í fimmta. Ekkert ríki Evrópu eða Norður-Ameríku kemst á blað meðal þeirra sem skipa tíu efstu sætin.

En ef horft er til fjölda flóttafólks er Tyrkland í fyrsta sæti með 3,6 milljónir í lok síðasta árs og Kólumbía í öðru sæti með 1,8 milljónir og Pakistan í því þriðja með 1,4 milljónir flóttamanna. Eina Evrópuríkið sem kemst hér á blað er Þýskaland með tæplega 1,2 milljónir.

Lítið hefur breyst undanfarin ár hvað varðar upprunaland fólks á flótta. Átta af hverjum tíu flóttamönnum eru frá tíu löndum heims.

AFP

Í heilan áratug hafa fimm þeirra verið á topp tíu listanum. Það er verið meðal þeirra tíu ríkja þar sem flestir hafa neyðst að flýja að heiman. Þetta eru Afganistan, Sómalía, Kongó, Súdan og Erítrea. Frá árinu 2014 hefur Sýrland verið það land þar sem flestir íbúanna hafa flúið en í lok árs 2019 voru 6,6 milljónir Sýrlendinga á flótta í 126 löndum alls. Flestir þeirra í Tyrklandi. Venesúelabúar hafa undanfarin ár verið að fikra sig upp listann og nú eru tæplega 94 þúsund Venesúelabúar skilgreindir sem flóttamenn en 3,6 milljónir til viðbótar eru á vergangi erlendis. Þar að auki eru tæplega 800 þúsund með hælisumsókn í öðru ríki í lok árs 2019.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert