Hundruð milljónir bóluefnisskammta fyrir árslok

Þrír hópar eru taldir þurfa á fyrstu umferð bólusetninga að …
Þrír hópar eru taldir þurfa á fyrstu umferð bólusetninga að halda. AFP

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin segir að hugsanlega verði hægt að framleiða hundruð milljónir skammta af bóluefni gegn kórónuveirunni fyrir árslok 2020 sem hægt væri að gefa þeim sem berskjaldaðastir eru fyrir veirunni.

Þá er horft til þess að tveir milljarðar skammta verði framleiddir fyrir árslok 2021.

Vísindamenn um heim allan vinna nú að tilraunum á 200 mismunandi bóluefnum sem virkað gætu gegn kórónuveirunni. Þar af eru tilraunir með tíu mismunandi bóluefni hafnar á fólki.

„Ef við erum mjög heppin þá munu eitt eða tvö árangursrík bóluefni verða til fyrir lok þessa árs,“ segir Soumya Swaminathan, yfirvísindamaður hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni.

Þrír hópar eru taldir þurfa á fyrstu umferð bólusetninga að halda, en það er framlínustarfsfólk baráttunni við kórónuveirufaraldurinn, þ.m.t. heilbrigðisstarfsfólk og lögregluþjónar, þeir sem eru í mestri hættu á að veikjast alvarlega af völdum veirunnar, t.d. gamalt fólk og fólk með sykursýki, og loks fólk sem á í nánu samneyti við margt fólk, svo sem íbúar fátækrahverfa og íbúar og starfsfólk hjúkrunarheimila.

„Það þarf að byrja á þeim sem eru berskjaldaðastir og halda svo áfram að bólusetja fleiri.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert