Vissi ekki að Bretland væri kjarnorkuveldi

Bolton og Trump í maí árið 2018.
Bolton og Trump í maí árið 2018. AFP

Donald Trump Bandaríkjanna vissi ekki að Bretland væri kjarnorkuveldi, að því er kemur fram í bók fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafa hans, John Bolton.

Forsetinn er sagður hafa sett fram ummælin um hernaðargetu Breta á fundi með Theresu May, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, fyrir tveimur árum. Bolton, sem starfaði í sautján mánuði í Hvíta húsinu, segir að forsetinn hefði „vitað ótrúlega lítið“.

Dominic Raab, utanríkisráðherra Bretlands, vildi ekki tjá sig um málið í dag, að sögn BBC

577 blaðsíðna bók Bolton, The Room Where It Happened, á að koma út í næstu viku en Bandaríkjastjórn er að reyna að koma í veg fyrir útgáfuna.

Í tísti sagði Trump bókina vera „uppfulla af lygum og falsfréttum“.

Að sögn eins sérfræðings bar vopnabúr Breta á góma á fundinum með May árið 2018. „Ó, eruð þið kjarnorkuveldi?“ sagði Trump, að því er kemur fram í bókinni. Þar segist Bolton hafa tekið eftir því að þetta „hafi ekki átt að vera brandari“.

Theresa May.
Theresa May. AFP

Bolton yfirgaf Hvíta húsið í september í fyrra. Hann segist hafa sagt upp störfum en Trump segir að hann hafi verið rekinn vegna deilna þeirra á milli.

Níu þjóðir búa yfir kjarnorkuvopnum: Bandaríkin, Bretland, Rússland, Frakkland, Kína, Indland, Pakistan, Ísrael og Norður-Kórea

Í viðtali við ABC News segir Bolton að Trump sé vanhæfur sem forseti. „Ég held að hann sé ekki hæfur fyrir þetta embætti. Ég held að hann hafi ekki getuna sem til þarf,“ segir hann.

„Algjör skáldskapur“

Trump segir í nýlegu tísti sínu að bókin sé uppspuni frá rótum og að Bolton gangi ekki heill til skógar.

„Margar af þessum fáránlegu ummælum sem hann segir að ég hafi látið falla voru aldrei sögð, algjör skáldskapur,“ tísti Trump.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert