Spænskur metsöluhöfundur látinn

Carlos Ruiz Zafon er látinn eftir baráttu við krabbamein.
Carlos Ruiz Zafon er látinn eftir baráttu við krabbamein. AFP

Spænski metsöluhöfundurinn Carlos Ruiz Zafon er látinn af völdum krabbameins, 55 ára að aldri. Útgefandi hans tilkynnti um andlátið en Zafon lést á heimili sínu í Los Angeles. 

Rithöfundurinn öðlaðist heimsfrægð og mikla hylli fyrir bókaflokk sinn um Kirkjugarð gleymdu bókanna. Í umfjöllun Morgunblaðsins um bókina Fangi himinsins árið 2014 sagði rýnir að Zafon hefði „tekist að búa til heillandi heim spennu og svika, ógnar og illsku, hugdirfsku og göfgi, leyndardóma og ráðgáta“ í bókunum.

Fyrsta bókin í flokknum, Skuggi vindsins, hefur verið þýdd á um fimmtíu tungumál og selst í milljónum eintaka. Bækurnar í flokknum urðu alls fjórar. 

Höfundurinn neitaði alla tíð að selja réttinn að bókum sínum til kvikmyndagerðar. Sagði Zafon að bækurnar væru virðingarvottur við hið ritaða orð. Af þeim sökum væru það svik að breyta þeim í kvikmynd eða sjónvarpsþætti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert