MI5 taldi enga hættu stafa af Saadallah

Fólk leggur blóm skammt frá árásarstaðnum þar sem þrír létust.
Fólk leggur blóm skammt frá árásarstaðnum þar sem þrír létust. AFP

Maðurinn sem er í haldi lögreglunnar í Reading á Englandi vegna gruns um að hann hafi orðið þremur að bana í hnífstunguárás í almenningsgarði í gærkvöldi heitir Khairi Saadallah.

Saadallah er 25 ára gamall og samkvæmt heimildum BBC er hann upprunalega frá Lýbíu, og hafði verið undir eftirliti MI5, bresku leyniþjónustunnar, árið 2019. Saadallah var handtekinn á vettvangi glæpsins í gær og er málið rannsakað sem hryðjuverk.

Forsætisráðherra Bretlands, Boris Johnson, segir árásina ógeðslega og að honum hafi blöskrað hún. 

Samkvæmt heimildum BBC var athygli MI5 vakin á máli Saadallah þegar hann var sagður á leið erlendis, hugsanlega í þeim tilgangi að fremja eða ganga til liðs við hryðjuverkasamtök.

Samkvæmt niðurstöðum rannsóknar leyniþjónustunnar hafi hins vegar ekkert bent til þess að hætta stafaði af Saadallah og var málið látið niður falla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert