Níu milljónir smita á heimsvísu

Tedros Adhanom, framkvæmdastjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, segir að stærsta ógnin sem heimurinn …
Tedros Adhanom, framkvæmdastjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, segir að stærsta ógnin sem heimurinn standi frammi fyrir í dag sé ekki kórónuveiran. AFP

Kórónuveirusmit eru orðin fleiri en níu milljónir talsins á heimsvísu. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin segir faraldurinn enn á uppleið.

Þrátt fyrir að útlit sé fyrir að búið sé að ná tökum á faraldrinum í Evrópu, sem sést meðal annars á því að milljónir franskra skólabarna fengu loks að snúa aftur í skólastofurnar í dag, er hann á blússandi siglingu víðast hvar annars staðar í heiminum.

Þannig náði fjöldi dauðsfalla af völdum kórónuveirunnar 50.000 í Brasilíu í dag, auk þess sem hundraðþúsundasta smitið var staðfest í Suður-Afríku.

Stærsta ógnin ekki kórónuveiran

Tedros Adhanom, framkvæmdastjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, segir að stærsta ógnin sem heimurinn standi frammi fyrir í dag sé hins vegar ekki kórónuveiran, sem hefur orðið 465 þúsund manns að bana, heldur skortur á samstöðu og sameiginlegri forystu. „Við getum ekki sigrast á faraldrinum í sundruðum heimi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert