Óttast aukna útbreiðslu

Dr. Anthony Fauci mætti fyrir þingnefnd í dag.
Dr. Anthony Fauci mætti fyrir þingnefnd í dag. AFP

Helstu sérfræðingar Bandaríkjastjórnar í smitsjúkdómum vöruðu Bandaríkjaþing við því í dag að nýjum tilfellum kórónuveirunnar væri fjölga mjög hratt í landinu. Sagði Dr. Anthony Fauci, sem leiðir sóttvarnateymi Hvíta hússins, að næstu dagar myndu skipta sköpum til að stemma stigu við faraldrinum. Þetta kemur fram í frétt BBC um málið

Sérfræðingarnir komu fyrir þingnefnd fulltrúadeildarinnar í orkumálum í dag, sem er að rannsaka viðbrögð bandarískra stjórnvalda við faraldrinum. Sagðist enginn þeirra hafa fengið beiðni frá Donald Trump Bandaríkjaforseta um að „hægja á“ skimunum, en Trump gantaðist með það á kosningafundi sínum í Tulsa á laugardaginn að með færri prófum kæmu upp færri tilfelli. 

„Eftir því sem ég fæ best vitað hefur enginn okkar verið beðinn um að hægja á skimunum,“ sagði Fauci. „Þvert á móti munum við fjölga veiruprófunum.“ Sagði Fauci einnig að hann væri hóflega bjartsýnn á að bóluefni við veirunni yrði tilbúið fyrir lok þessa árs. 

Rúmlega 2,3 milljónir Bandaríkjamanna hafa smitast af kórónuveirunni og rúmlega 120.000 látist af völdum hennar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert