Evrópusambandið varar Bandaríkin við

Deilurnar snúast í grunninn um styrki sem Airbus og Boeing …
Deilurnar snúast í grunninn um styrki sem Airbus og Boeing hafa fengið frá Evrópusambandinu og bandarískum stjórnvöldum. AFP

Evrópusambandið segist munu bregðast við „með afgerandi hætti“ ef bandarísk stjórnvöld standi við hótanir sínar um að leggja tolla á vörur frá evrópskum fyrirtækjum. Yfirvöld í Washington hafa lengi verið ósátt með þá framleiðslustyrki sem flugvélaframleiðandinn Airbus fær frá Evrópusambandinu.

Evrópusambandið og Bandaríkin hafa sakað hvort annað um að styðja óeðlilega við risafyrirtækin tvö í flugvélaframleiðslu, þ.e. annars vegar hið evrópska Airbus og Boeing sem er bandarískt fyrirtæki, með skattaívilnunum og rannsóknarstyrkjum svo dæmi séu tekin. BBC greinir frá.

Bandaríkin hótuðu því í síðasta mánuði að leggja tolla á evrópskar vörur svo sem bjór, gin og ólífur. Phil Hogan, framkvæmdastjóri viðskiptamála hjá Evrópusambandinu, segir að bandarísk stjórnvöld hafi neitað að samþykkja þær tillögur sem ESB hefur lagt fram til að leysa deiluna.

„Ég vil fullvissa alla um að Evrópusambandið er reiðubúið að bregðast við með afgerandi hætti og af hörku ef bandarísk stjórnvöld fallast ekki á lausn sem við sættum okkur við á þessari 15 ára gömlu deilu,“ sagði Hogan fyrir viðskiptamálanefnd Evrópuþingsins.

Alþjóðaviðskipta­stofn­un­in (WT) hefur úrskurðað að framleiðslustyrkir frá ESB til Airbus árið 2004 hafi verið ólögmætir. Stofnunin er með til skoðunar hvort samskonar styrkir bandarískra yfirvalda til Boeing hafi verið ólögmætir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert