Þúsund punda mynt til heiðurs Elton John

Þessi skildingur, Elton John til heiðurs, fer í umferð von …
Þessi skildingur, Elton John til heiðurs, fer í umferð von bráðar. Ljósmynd/Royal Mint

Rokkstjarnan Elton John verður heiðraður með útgáfu sérstakrar minningarmyntar. Royal Mint, sem sér um peningaprentun í Bretlandi, greindi frá þessu í gær.

Listamaðurinn Bradley Morgan Johnson er hönnuður mintarinnar, en á henni má sjá hatt, slaufu og sólgleraugu, sem eru einkennandi fyrir stíl Elton John, og nafns listamannsins. „Það er æðislegur heiður að vera minnst á þennan hátt,“ hefur BBC eftir Elton John af því tilefni. „Síðustu ár hafa verið einhver þau minnisstæðustu á ferli mínum og þetta er annar áfangi á vegferð minni.“

Ódýrustu myntirnar verða slegnar á nafnvirðinu 5 pund, en bankinn mun þó selja þau á 13 pund. Þær dýrustu verða eins kílóa gullslegnar myntir, að nafnvirði 1.000 pund, en þær má kaupa fyrir rúmlega sexfalda þá upphæð, 68.865 pund (12 m.kr.). Ein þeirra verður seld á sérstöku uppboði til styrktar góðgerðarfélag tónlistarmannsins, Elton John Charitable Trust.

Útgáfa sérstakra minningarmynta er til siðs víða um heim. Myntir eru oft slegnar við sérstök tilefni og þótt nafnvirði þeirra sé jafnan lágt er litið á þær sem safngripi sem ganga kaupum og sölum á mun hærra virði. Þannig gáfu Bretar til að mynda út sérstaka minningarmynt þegar Ólympíuleikarnir voru haldnir í London árið 2012, en slíka fimm punda mynt má kaupa á Ebay á rúmu fjórföldu virði, 21 pund. 

Nokkrar slíkar myntir hafa verið slegnar hér á landi, þær síðustu árið 2000 þegar 10.000 króna peningur var sleginn í tilefni þúsund ára afmælis kristnitökunnar og 1.000 króna mynt til minningar um fund Norður-Ameríku.

Sir Elton John.
Sir Elton John. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert