„Getið ekki ímyndað ykkur helvítið“

Frans páfi.
Frans páfi. AFP

Frans páfi fordæmir búðir sem flóttafólki er haldið í af yfirvöldum í Líbýu. „Stríðið er skelfilegt eins og við vitum en þið getið ekki ímyndað ykkur helvítið sem fólk býr við þarna, í  fangabúðunum. Og þetta fólk kom með þá einu von um að komast yfir hafið,“ sagði páfi við messu í Páfagarði í dag.

Sjö ár eru í dag síðan Frans páfi heimsótti ítölsku eyjuna Lampedusa en þar koma margir þeirra sem flýja yfir Miðjarðarhafið frá Líbýu að landi. Þetta var fyrsta ferð nýkjörins páfa út fyrir Róm en þar gagnrýndi hann harðlega meðferð heimsins á flóttafólki. „Ég man þennan dag, fyrir sjö árum síðan, afar sunnarlega í Evrópu, á þessari eyju...,“ sagði hann. „Hópur fólks sagði mér sögu sína og hvað hann hafði gengið í gegnum til þess að komast þangað.“

Frans páfi segir að túlkur hafi verið viðstaddur og að þegar manneskja var að segja honum, á sínu tungumáli, þá hræðilegu hluti sem hún hafði gengið í gegnum, virtist túlkurinn þýða vel en á sama tíma var þýðingin stutt miðað við lýsingar flóttamannsins. Hann segir að síðar hafi komið í ljós að hann hafi fengið útþynnta útgáfu. „Það er þetta sem er að gerast með Líbýu. Þeir eru að segja okkur útþynnta útgáfu,“ sagði Frans páfi við messuna í morgun. 

Frans páfi hefur ítrekað lýst samstöðu með fólki sem flýr yfir Miðjarðarhafi og syrgt með þeim sem farast á flóttanum. Eins hefur hann oft gagnrýnt ríkar þjóðir harðlega fyrir að neita að taka á móti fólki á flótta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert