Framtíðin undir hjá milljónum nemenda

Nemendur á leið í gegnum öryggisleit. Að henni lokinni tók …
Nemendur á leið í gegnum öryggisleit. Að henni lokinni tók við stærsta próf lífs þeirra. AFP

Í þessari viku þreyttu um tíu milljónir kínverskra háskólanema mikilvægasta próf lífs þeirra. Aðstæðurnar voru um margt frábrugnar því sem venjan er sökum heimsfaraldurs kórónuveiru. Prófið er þekkt undir heitinu „Gaokao“ í Kína, sem merkir „Prófið stóra“, en þar ræðst hvar umræddir nemendur hljóta inngöngu í háskólanám. 

Prófið er árlegt og hefst á þriðjudegi og stendur yfir út vikuna. Prófinu í ár hafði verið frestað um mánuð vegna faraldurs kórónuveiru þar í landi. Að auki hefur ýmislegt komið upp í aðdraganda prófsins, en nú síðast reið stór jarðskjálfti og flóð yfir suðurhluta landsins. Hefur það haft talsverð áhrif á nemendurna, sem einungis fá eitt tækifæri til að þreyta prófið. Niðurstöðurnar eru endanlegar. 

Gríðarleg samkeppni um bestu skólana

Eins og gefur að skilja er gríðarleg samkeppni um fá laus sæti í bestu skólunum og er prófið oft á tíðum talið skera úr um framtíð nemendanna. Ekki er litið til annarra þátta en prófsins og því getur dagsformið ráðið því hvernig starfsferill viðkomandi einstaklinga kemur til með að þróast. Mest er samkeppnin um stóru skólana í Peking, Tsinghua-háskóla og Peking-háskóla, auk virta skóla á borð Fudan-háskóla í Shanghai. 

Í könnun sem gerð var í aðdraganda prófsins kom fram að ríflega helmingur nemenda eða rétt um 60% hefðu orðið fyrir neikvæðum áhrifum af völdum kórónuveirunnar. Það hefði jafnframt orðið til þess að undirbúningurinn og andleg líðan var ekki sem best. Þá svaraði þriðjungur svarenda því að einkunnir á æfingaprófum hefðu dalað frá því að faraldurinn tók að breiðast út. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert