Á heimleið eftir 10 vikur í öndunarvél

Breskur flugmaður, sem var í meira en tvo mánuði í öndunarvél eftir að hafa smitast af kórónuveirunni í Víetnam, er á heimleið. Þykir ótrúlegt að hann hafi náð bata en læknar töldu lífslíkur hans litlar eða 10%.

Stephen Cameron, 42 ára, er sá sem hefur veikst alvarlegast af COVID-19 í Víetnam svo vitað sé en enginn hefur látist af völdum veirunnar þar í landi. Stjórnvöld í Víetnam brugðust skjótt við þegar kórónuveirufaraldurinn hófst í Kína og er það talið skýra stöðuna.

Fyrir rúmum sex vikum vöruðu læknar ættingja Camerons við því að sennilega þyrfti hann að fara í tvöföld lungnaskipti þar sem virkni þeirra var aðeins 10%.

En nú, tæpum fjórum mánuðum eftir að hafa verið lagður inn á sjúkrahús í Ho Chi Minh-borg, þar á meðal 10 vikur í öndunarvél, hefur flugmaðurinn, sem starfar hjá Vietnam Airlines, verið útskrifaður og er á leið heim til Bretlands síðar í dag. Cameron, sem er frá Motherwell í Skotlandi, segist orðlaus yfir göfuglyndi Víetnama og fagmennsku sem einkenni lækna og hjúkrunarfólk við Cho Ray-sjúkrahúsið.

„Ég er glaður yfir því að vera á heimleið en ég er einnig dapur yfir því að yfirgefa alla þá góðu vini sem ég hef eignast hér,“ sagði Cameron þegar hann yfirgaf sjúkrahúsið í morgun.

Tran Thanh Linh, aðstoðaryfirlæknir gjörgæsludeildar Cho Ray-sjúkrahússins, segir að starfsfólk hafi lagt gríðarlega mikið á sig við að bjarga lífi Camerons og hann hafi fengið alla þá bestu þjónustu sem í boði er.

Cameron kom til Víetnam í byrjun febrúar til að taka við nýju starfi hjá flugfélaginu. Aðeins nokkrum vikum síðar fór hann á vinsælan bar í borginni sem nefnist Buddha Bar en nokkrum dögum síðar, 18. mars, greindist hann smitaður af COVID-19.

Hann gekk undir nafninu sjúklingur 91 og vöktu veikindi hans mikla athygli meðal Víetnama enda tóku færustu læknar landsins þátt í að bjarga lífi hans.

Þegar greint var frá því að hann þyrfti á nýjum lungum að halda bárust 59 umsóknir um að gefa honum lunga samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðisráðuneyti landsins.

Þegar Cameron komst til meðvitundar í lok maí sýndi hann lítilsháttar batamerki. Fyrstu opinberu merkin um að hann væri á réttri leið voru myndir af honum úti á svölum spítalans og myndskeið þar sem hann hélt trefli knattspyrnuliðsins Motherwell á lofti. 

Fyrir viku greindu fjölmiðlar í Víetnam frá því að lækniskostnaður hans næmi að minnsta kosti 150 þúsund bandaríkjadölum, eða 21 milljón króna. Flogið verður með hann til London í dag og verða þrír læknar með í för. Ekkert nýtt smit hefur greinst í Víetnam í 85 daga og aðeins 370 COVID-19-smit hafa verið staðfest þar. Eins og áður segir hefur enginn látist af völdum veirunnar í Víetnam. Landamæri Víetnam eru enn lokuð að mestu og yfir 10 þúsund eru í sjálfskipaðri sóttkví.

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert