Íhuga að banna pólitískar auglýsingar

Mark Zuckerberg, forstjóri og stofnandi Facebook.
Mark Zuckerberg, forstjóri og stofnandi Facebook. AFP

Stjórnendur samfélagsmiðilsins Facebook íhuga nú að banna allar pólitískar auglýsingar í aðdraganda bandarísku forsetakosninganna í nóvember. Engin ákvörðun hefur enn verið tekin um málið, en stjórnendurnir eru sagðir íhuga alvarlega að banna allar auglýsingar er tengjast áróðri í tengslum við umræddar kosningar. Frá þessu er greint á vef Bloomberg

Ef af yrði er ljóst að miðillinn yrði af gríðarlegum tekjum, en pólitískar auglýsingar eru stór hluti tekjulindar Facebook. Þá er eyðsla frambjóðanda alltaf mest þegar nær dregur kosningum, en nú eru rétt um fjórir mánuðir til forsetakosninga í Bandaríkjunum. 

Að því er fram kemur í umfjöllun Bloomberg um málið er miðillinn einungis að skoða málið og því liggur endanleg ákvörðun ekki fyrir. Þá er sömuleiðis óljóst hvort framangreindar auglýsingar yrðu bannaðar á öðrum miðlum í eigu Facebook, þar á meðal Instagram. Hafa sérfræðingar áhyggjur af því þetta kunni að draga úr kosningaþátttöku og getu frambjóðenda til að bregðast við nýjum upplýsingum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert