Loka á neyðaraðstoð til Sýrlands

AFP

Endi hefur verið bundinn á neyðaraðstoð til Sýrlands þar sem ekki tókst að komast að samkomulagi í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna um hvernig standa ætti að aðstoðinni. 

Rússar og Kínverjar beittu neitunarvaldi gegn tillögu um að framlengja samkomulag sem rann út á miðnætti en samkvæmt því var heimilt að flytja hjálpargögn yfir landamærin á tveimur stöðum. Önnur ríki sem eiga aðild að öryggisráðinu samþykktu tillöguna. Aftur á móti var gagntillögu Rússa hafnað.

Azraq búðirnar þar sem nokkur hundruð sýrlenskar fjölskyldur búa eftir …
Azraq búðirnar þar sem nokkur hundruð sýrlenskar fjölskyldur búa eftir að hafa hrakist að heiman vegna stríðsátaka. Búðirnar eru skammt frá bænum Maaret Misrin í Idlib-héraði. AFP

Án samkomulags er heimildin til að flytja hjálpargögn til stríðshrjáðra íbúa Sýrlands sem gilt hefur frá árinu 2014 orðin að engu. Þjóðverjar og Belgar vinna að sameiginlegri tillögu um hvernig hægt er að standa að neyðaraðstoðinni og standa vonir til að greidd verði atkvæði um hana síðar um helgina. 

Frá al-Zahraa hverfinu í Aleppo. Myndin var tekin fyrr í …
Frá al-Zahraa hverfinu í Aleppo. Myndin var tekin fyrr í vikunni en stríðið í Sýrlandi hefur geisað í meira en 9 ár. AFP

Þetta er annað skiptið í vikunni sem Rússar og Kínverjar beita neitunarvaldi í ráðinu vegna málsins og aðeins þrjú ríki greiddu atkvæði með tillögu Rússa um að fækka landamærastöðvunum úr tveimur í eina þar sem heimilt er að fara um með hjálpargögn. Um er að ræða landamæri Tyrklands og Sýrlands. 

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna.
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna. AFP

Mannúðarsamtökin Oxfam vara við því að ef hætt verður að flytja hjálpargögn inn í landið geti það haft skelfilegar afleiðingar í för með sér fyrir milljónir fjölskyldna í Sýrlandi sem reiða sig alfarið á þessa aðstoð. Það er hreint vatn, mat, lyf- og sjúkragögn og neyðarskýli.

Ríki Evrópu og Bandaríkin vilja að áfram verði heimilt að flytja gögnin um landamærastöðvarnar við Bab al-Salam, sem tengjast Aleppo-héraði, og Bab al-Hawa, sem þjónar Idlib-héraði. Með samþykkt öryggisráðsins er hægt að dreifa neyðaraðstoð til þurfandi án þess að fá heimild til þess frá ríkisstjórn landsins. 

AFP

Rússar og Kínverjar halda því fram að með þessu sé vegið að sjálfstæði Sýrlands og hægt sé að veita slíka aðstoð í gegnum stjórnvöld í Sýrlandi. Tillaga Rússa miðaði að því að aðeins væri heimilt, og þá bara í eitt ár, að veita heimild fyrir flutning hjálpargagna um Bab al-Hawa. Rússar segja að 85% hjálpargagnanna sem eru flutt yfir landamærin fari í gegnum Bab al-Hawa og því sé eðlilegt að hætta honum um Bab al-Salam. 

Sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, Kelly Craft, segir að þetta myndi þýða að 1,3 milljónir Sýrlendinga, sem búa norður af Aleppo, fengju enga aðstoð.

Í skýrslu Antonios Guterres, aðal­fram­kvæmda­stjóra Sam­einuðu þjóðanna, í síðasta mánuði var farið fram á að heimildin yrði framlengd um eitt ár. Talsmaður SÞ, Stephane Dujarric, sagði í gær að nauðsynlegt væri að meira yrði flutt yfir landamærin af hjálpargögnum, ekki minna. 

David Miliband, yfirmaður mann­rétt­inda­sam­tak­anna In­ternati­onal Rescue Comm­ittee, IRC, segir að þetta sé svartur dagur fyrir Sýrlendinga og Sameinuðu þjóðirnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert