Romney: Ákvörðun Trumps fordæmalaus spilling

Mitt Romeny, öldungardeildarþingmaður repúblikana og fyrrverandi forsetaframbjóðandi.
Mitt Romeny, öldungardeildarþingmaður repúblikana og fyrrverandi forsetaframbjóðandi. AFP

Mitt Romney, öldungardeildarþingmaður repúblikana í Bandaríkjunum, segir ákvörðun Donalds Trumps forseta um að milda refsingu fyrrverandi ráðgjafa síns og vinar, Rogers Stones, vera „fordæmalausa, sögulega spillingu“. 

Stone, sem er 67 ára, átti að hefja 40 mánaða afplánun í fangelsi á fimmtudag eftir að hafa verið sakfelldur fyrir svik og að standa í vegi fyrir réttvísinni þegar fulltrúadeild Bandaríkjaþings hóf rannsókn á því hvort kosningateymi Donalds Trumps hefði átt í samskiptum við Rússa til að hjálpa sér í kosningabaráttunni 2016. Ákærurnar voru meðal þess sem sérstök rannsókn saksóknarans Roberts Muellers leiddi fram. Hann er nú frjáls maður eftir ákvörðun forsetans, sem veitti honum þó ekki sakaruppgjöf.

„Fordæmalaus, söguleg spilling: Bandaríkjaforseti mildar dóm yfir manneskju sem er sakfelld af kviðdómi fyrir að ljúga til að verja forsetann,“ sagði Romney í færslu á Twitter.

Romney er einn fárra þingmanna repúblikana sem hafa óhindrað gagnrýnt Donald Trump frá því hann tók við embætti. Þá hefur hann lýst því yfir að hann muni ekki kjósa Trump í kosningunum í nóvember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert