Verja milljónum til að bjarga klúbbum

Teknóklúbburinn Berghain er vafalaust sá þekktasti í Berlín.
Teknóklúbburinn Berghain er vafalaust sá þekktasti í Berlín. Ljósmynd/Wikipedia

46 klúbbar og tónleikastaðir í Berlín hafa fengið að meðaltali 81.000 evra styrk (12,8 m.kr.) frá yfirvöldum þar í borg samkvæmt tölum frá þýska blaðinu Tagesspiegel.

Klúbbarnir eru flestir teknóklúbbar og hafa hjálpað til við að byggja upp orðspor Berlínar sem partíborgar. Þeir hafa verið lokaðir frá því 14. mars vegna kórónuveirufaraldursins. Til að koma til móts við rekstrarerfiðleika staðanna var því ákveðið að styrkja þá um væna summu.

„Ég vil að fólk geti dansað og haft gaman þegar dagar kórónuveirunnar eru taldir. Klúbbarnir verða að lifa af,“ sagði Georg Kossler, þingmaður græningja á sambandsþingi Berlínar í samtali við Tagesspiegel. Meðal þeirra staða sem hafa fengið styrk eru þekktir klúbbar á borð við Tresor, Kater Club og hinsegin barinn Schwuz.

Engin fyrirheit hafa verið gefin út um það hvenær opna má skemmtistaði að nýju í Þýskalandi, en tímabundnir skattaafslættir hafa verið kynntir til sögunnar til að auðvelda þeim reksturinn þegar þar að kemur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert