Snjallúr tvíeggjað sverð

Snjallúr geta verið tvíeggja sverð.
Snjallúr geta verið tvíeggja sverð. AFP

Snjallúr valda hjartasjúklingum meiri skaða en þau koma að gagni að því er fram kemur í nýrri danskri rannsókn.

Fram kemur í frétt Politiken að snjallúr geti vissulega hjálpað sjúklingum og veitt þeim meiri skilning á eigin heilsu en á sama tíma gera þau sjúklinga áhyggjufyllri.

„Rannsókn okkar sýnir að allar þessar mælingar geti valdið meiri skaða en ábata hvað sjúklingana varðar. Fyrir suma hjartasjúklinga getur það verið mjög hvetjandi að fá snjallúr því það fær þá til þess að hreyfa sig meira. En fyrir aðra er þetta áminning um sjúkdóm þeirra og þeir verða aukinheldur óöruggir þar sem þeir vita ekki alltaf hvernig eigi að túlka þau ólíku gögn sem berast frá úrinu,“ segir einn þriggja  höfunda, Tariq Osman Andersen, aðjúnkt við Kaupmannahafnarháskóla, en rannsóknin var birt í Journal of Medical Internet Research.

Í rannsókninni kemur fram að í mörgum tilfellum hvetji snjallúrin til aukinnar hreyfingar en magn upplýsinganna sé oft til vandkvæða. Hvaða þýðingu hefur það t.d. að hvíldarpúlsinn þinn stígur viku eftir viku, eða þú náir ekki að taka þau 10 þúsund skref sem úrið vill meina að þú þurfir að ná á hverjum degi?

„Almennt verður fólk áhyggjufyllra þegar það nær ekki að setja upplýsingarnar í rétt samhengi en hjá hjartasjúklingum eru afleiðingarnar meiri. Ef þeir vinna rangt úr upplýsingunum og fara t.d. að hreyfa sig meira en þeir geta getur ástand þeirra versnað,“ segir Tariq enn fremur en tók þó fram að stundum hefðu úrin jákvæð áhrif. 

Rannsóknin tók til 27 hjartasjúklinga á aldrinum 27-74 ára.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert