Ellefu látnir eftir íkveikju

Fólk fylgist með slökkviliði að störfum við 13 hæða íbúðablokk …
Fólk fylgist með slökkviliði að störfum við 13 hæða íbúðablokk í Bohumin í Tékklandi í dag þar sem 11 manns, þar af þrjú börn, létu lífið í því sem talið er hafa verið íkveikja og er maður í haldi lögreglu, grunaður um verknaðinn. Fimm þeirra sem létust hentu sér í örvæntingu út um glugga á tólftu hæð til að forða sér undan eldhafinu. AFP

Maður er í haldi lögreglu í Bohumin í Norðaustur-Tékklandi, um 300 kílómetra austur af Prag, grunaður um að hafa kveikt í fjölbýlishúsi þar í borginni í dag með þeim afleiðingum að ellefu manns létu lífið, þar af þrjú börn.

Eldurinn kom upp á 11. hæð hússins, sem er á 13 hæðum, og voru sex fórnarlambanna stödd í einni og sömu íbúðinni, þar af börnin þrjú, eftir því sem AP-fréttastofan greinir frá. Hinir fimm létust þegar þeir reyndu að forða sér undan logunum og stukku í örvæntingu sinni út um glugga á tólftu hæð byggingarinnar.

Auk þeirra sem létust eru tíu slasaðir, þar af er slökkviliðsmaður alvarlega sár. Tomas Kuzel, lögreglustjóri í Bohumin, segist telja víst að sá, sem tekinn var höndum, sé brennuvargurinn. Vladimir Vlcek slökkviliðsstjóri segist ekki geta tjáð sig um það enn sem komið er hvernig eldurinn kviknaði, „en hann breiddist mjög hratt út, mun hraðar en eðlilegt er,“ sagði Vlcek í viðtali við tékkneska sjónvarpsstöð.

Sviðnir veggir efst á byggingunni eftir að slökkvilið réð niðurlögum …
Sviðnir veggir efst á byggingunni eftir að slökkvilið réð niðurlögum eldsins. AFP

Lukas Popp, annar talsmaður slökkviliðsins, sagði AFP-fréttastofunni að þrátt fyrir að slökkvilið hefði verið mjög fljótt á vettvang hefði ekki náðst til þeirra fimm, sem stukku frá tólftu hæðinni, tímanlega og bætti því við að rannsókn væri nú hafin á eldsupptökum.

Jan Hamacek, innanríkisráðherra Tékklands, sendi aðstandendum hinna látnu samúðarkveðjur á Twitter og kallaði atburðinn skelfilegan harmleik. Eins sendi hann slökkviliðsmanninum slasaða óskir sínar um skjótan bata.

Euronews

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert