Fær sterkt mótframboð eftir 26 ára valdasetu

Svetlana Tsikanovskaja, fyrir miðju.
Svetlana Tsikanovskaja, fyrir miðju. AFP

Tuttugu og sex ár eru síðan Alexander Lúkasjenkó tók í hendur sínar stjórnartauma Hvíta-Rússlands. Um þá hefur hann haldið síðan, sem fyrsti og eini forseti landsins. Skyndileg upprisa mótframbjóðanda hans í komandi kosningum, Svetlönu Tsikanovskaju, hefur því komið nær öllum að óvörum. Kosningarnar fara fram á morgun.

Í hópi fjögurra mótframbjóðenda forsetans hefur Tsikanovskaja skarað fram úr með skilvirkri og fágaðri kosningabaráttu, með fjöldafundum vítt og breitt um landið þar sem þúsundir hafa komið saman og kallað eftir breytingum og frelsi.

Lúkasjenkó ávarpar stuðningsmenn sína í vikunni.
Lúkasjenkó ávarpar stuðningsmenn sína í vikunni. AFP

Lofar nýjum kosningum

Svetlana Tsikanovskaja er 37 ára enskukennari og þýðandi, sem kallar sjálfa sig „hefðbundna konu, móður og eiginkonu“. Steig hún inn í kosningabaráttuna eftir að yfirvöld tóku höndum eiginmann hennar, vinsælan bloggara úr röðum stjórnarandstöðunnar sem stefnt hafði sjálfur á framboð.

Í fyrstu fannst henni sviðsljósið óþægilegt, að því er segir í umfjöllun fréttaveitunnar AFP, en hefur unnið á og aflað stuðnings víða að með loforði sínu um að frelsa þá stjórnarandstæðinga sem yfirvöld hafa hneppt í fangelsi.

Hún hefur einnig sagst munu boða til nýrra kosninga sem gera myndu öllum stjórnarandstæðingum kleift að taka þátt. Í framboðshópi hennar, sem inniheldur aðeins konur, eru meðal annars eiginkona formanns eins stjórnarandstöðuflokks og kosningastjóri annars flokks.

Tákni framboðs Tsikanovskaju haldið á lofti af stuðningsfólki hennar á …
Tákni framboðs Tsikanovskaju haldið á lofti af stuðningsfólki hennar á fimmtudag. AFP

Þóttu frjálsar árið 1995

Tsikanovskaja hefur hvatt kjósendur til að verjast kosningasvindli með því að taka ekki þátt í utankjörfundarkosningum áður en kjördagur rennur upp á morgun.

Niðurstöður kosninganna eru samt sem áður ekki miklum vafa undirorpnar, enda er Hvíta-Rússlandi oft lýst sem síðasta einræðisríki álfunnar.

Árið 1995 var síðasta árið þar sem kosningar í landinu þóttu frjálsar. Og kosningaeftirlitsmönnum frá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu hefur ekki verið boðið nú – í fyrsta sinn frá árinu 2001.

Fólk sem AFP tók tali í höfuðborginni Minsk í vikunni sagðist vonast til að kosningarnar myndu leiða til einhverra breytinga. Sumir viðmælendur óttuðust ofbeldisbylgju eftir að niðurstöðurnar verða gerðar ljósar.

„Kannski koma erfiðir tímar, en það verða breytingar og það er gott,“ sagði 21 árs neminn Ilya. „Ég kvíði þessu,“ sagði Nelli, fjörutíu ára ljósmyndari. „Við gætum þurft að berjast alvarlega fyrir okkar málstað og atkvæðunum okkar, sem verður að sjálfsögðu stolið.“

Tsikanovskaja settist niður til tals við AFP í gær.
Tsikanovskaja settist niður til tals við AFP í gær. AFP

Eitthvað breyst í landinu

Sjálf segir Tsikanovskaja í samtali við AFP að sér virðist sem eitthvað hafi breyst í landinu að undanförnu.

„Fólk er að vakna og uppgötva upp á nýtt virðingu fyrir sjálfu sér,“ segir hún.

Hún segist búast við að Lúkasjenkó hagræði úrslitunum. Hann þurfi þó að stíga friðsamlega úr stóli, fari svo að hann tapi.

„En við munum ekki ná að koma í veg fyrir falsanir. Við höfum séð síðustu daga hversu ósvíflega er gengið að verki við að falsa kosningarnar. Það er borin von að atkvæðin verði talin af sanngirni. Við þurfum að vera raunsæ.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert