Petter Northug tekinn með kókaín

Petter Northug hefur meðal annars unnið til tvennra gullverðlauna á …
Petter Northug hefur meðal annars unnið til tvennra gullverðlauna á Ólympíuleikum og 13 á heimsmeistaramótum og var ein skærasta stjarna norskrar skíðagöngukeppni í á annan tug ára. AFP

Norska skíðagöngustjarnan Petter Northug lenti öðru sinni upp á kant við lögin þegar lögreglan stöðvaði Jaguar-bifreið hans á 168 kílómetra hraða á E6-brautinni í Ullensaker, norðaustur af Ósló, á fimmtudagskvöldið.

Urðu lögreglumenn þess áskynja að ökumaðurinn var ekki með öllu allsgáður og reyndist hann við blóðprufu á læknavakt vera undir áhrifum kókaíns. Húsleit var í framhaldinu gerð á heimili Northug, sem hættur er skíðaiðkun fyrir nokkru en heldur nú úti sportgleraugnalínu sem ber nafn hans, og fannst eitthvað af kókaíni þar.

Alvarleg mistök

„Ég gerði alvarleg mistök. Í gærkvöldi stöðvaði lögreglan mig vegna hraðaksturs,“ skrifaði Northug á Instagram á föstudagskvöldið. „Ég var færður á læknavakt í blóðprufu. Í framhaldi af því fann lögreglan lítilræði af fíkniefnum á heimili mínu og var þar um kókaín að ræða. Ég er með böggum hildar og óttast hvað framtíðin muni bera í skauti sér auk þess sem mér þykir gríðarlega leitt að hafa valdið svo mörgum vonbrigðum, aftur,“ skrifaði Northug enn fremur.

Tæplega 600 hestafla Jaguar F-SVR-bifreið Northug stöðvuð við E6-brautina á …
Tæplega 600 hestafla Jaguar F-SVR-bifreið Northug stöðvuð við E6-brautina á fimmtudagskvöldið þar sem lögregla mældi hana á 168 kílómetra hraða. Ljósmynd/Aðsend

Með aftur vísar hann til þess þegar hann var tekinn ölvaður á Audi-bifreið sinni í Þrándheimi í maí 2014 eftir að hafa ekið yfir hringtorg á fleygiferð og á vegrið þar sem bifreiðin stöðvaðist gjörónýt. Audi-umboðið, sem hafði látið bifreiðina í té, sagði þá upp samningi sínum við skíðakappann en Coop-verslunarkeðjan norska ákvað að sýna umburðarlyndi og halda styrktar- og auglýsingasamningi sínum við Northug sem hlaut 50 daga fangelsisdóm og 185.000 króna sekt, jafnvirði 2,8 milljóna íslenskra króna miðað við gengi dagsins í dag. Dóminn afplánaði hann á heimili sínu undir rafrænu eftirliti um ökklaband.

Segir skíðagöngufólk í áfalli

Lars Gilleberg, fyrrverandi umboðsmaður Northug, segir nýja málið hið sorglegasta, Northug sé manneskja og ekki megi allt snúast bara um hugtakið eða fyrirbærið (n. fenomenet) Petter Northug og vísar þar til tilveru hans sem einnar skærustu skíðastjörnu Noregs áður fyrr.

Eirik Myhr Nossum, fyrrverandi þjálfari Northug, tekur undir þau ummæli Gilleberg að um dapurlega uppákomu sé að ræða. „Það er ekki sorglegt að hann hafi verið tekinn, heldur að hann sé kominn á þann stað sem hann er á. Í þessar aðstæður.“

Audi-bifreið Northug eftir útafaksturinn í Þrándheimi í maí 2014. Hann …
Audi-bifreið Northug eftir útafaksturinn í Þrándheimi í maí 2014. Hann hlaut þá 50 daga fangelsisdóm og tæplega þriggja milljóna króna sekt miðað við íslenskar krónur. AFP

Nossum segir skíðagöngufólk í áfalli og vísar þar til landsliðsæfingahóps sem hann er nú staddur með í Steinkjer í Þrændalögum. „Enginn er sáttur við það sem hann hefur gert. En hvað sem tautar og raular er hann góður vinur okkar, það segi ég og fleiri í liðinu,“ lét Nossum hafa eftir sér frá Steinkjer í morgun.

NRK

VG

VGII

Aftenposten

TV2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert