Þrálát ráðgáta átti sér óvenjulega skýringu

Haustlitir í Norður-Wales í gær.
Haustlitir í Norður-Wales í gær. AFP

Þrálát ráðgáta, um hvers vegna heilt velskt þorp missti breiðbandstengingu sína dag hvern, klukkan sjö árdegis, reyndist eiga sér óvenjulega skýringu.

Þegar búið var að skipta um kapla í öllu þorpinu Aberhosan í Powys, og ekkert lagaðist, stóðu verkfræðingar á gati gagnvart vandamálinu sem varað hafði í átján mánuði. Ákveðið var að ráðast í frekari rannsókn, samkvæmt umfjöllun BBC.

Gripu þeir til þess ráðs að ganga um þorpið með tæki sem nemur tíðnibylgjur og reyndu þannig að finna hvað olli vandanum.

Skömmustulegur eigandi

Loks komust þeir að því að um var að kenna gömlu sjónvarpi.

Svo vildi til að maðurinn, sem sjónvarpið átti, kveikti á því á hverjum morgni klukkan sjö. Einhver bilun í tækinu gerði það þá að verkum að það truflaði breiðbandstengingu allra annarra í kring.

Hermt er að eigandinn hafi verið mjög skömmustulegur þegar hann var látinn vita. Mun hann hafa lofað að aldrei skyldi aftur kveikt á gripnum gamla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert