Hafi hunsað viðvaranir íslenskra yfirvalda

Allir starfsmenn Kitzloch barsins á skíðasvæðinu í Ischgl smituðust af …
Allir starfsmenn Kitzloch barsins á skíðasvæðinu í Ischgl smituðust af kórónuveirunni. AFP

Miðað við samskipti og fundargerðir sem AFP hefur undir höndum virðast stjórnvöld í austurríska héraðinu Tíról hafa hunsað viðvaranir íslenskra heilbrigðisyfirvalda um útbreiðslu smita á skíðasvæði í Ischgl hvar 16 Íslendingar eru taldir hafa smitast af veirunni í upphafi faraldursins.

Gögnin gefa til kynna að stjórnvöld í Tíról hafi gert lítið úr alræmdri útbreiðslu kórónuveirunnar á skíðasvæðinu. Virðist tilgangurinn hafa verið að vernda orðspor Ischgl. 

Eins og flestum Íslendingum er kunnugt var Ischgl smitmiðja hópsýkingar í Tíról en þar smituðust fleiri en 6.000 ferðamenn.

Ráðamenn í Tíról hafa ítrekað sagt að engin mistök hafi orðið í viðbrögðum við útbreiðslu veirunnar og yfirvöld hafi brugðist rétt við miðað við þær upplýsingar sem voru fyrir hendi á þeim tíma. 

Yfirlýsingin í mótsögn við fyrri ummæli

Fréttamenn AFP hafa séð þúsundir blaðsíðna af gögnum sem varða útbreiðsluna, skilaboð og tölvupóstssamskipti ráðamanna sem og fundargerðir. Átakanlegustu gögnin snerta Kitzloch-barinn á skíðasvæðinu. 

7. mars greindist barþjónn þar smitaður af veirunni og var hann þar með sá fyrsti sem greindist smitaður í Ischgl. Morguninn eftir var haldinn neyðarfundur hjá heilbrigðisyfirvöldum í Tíról. Í fundargerð er vitnað í Anitu Luckner-Hornischer embættismann: „Við megum líklega vænta margra smita sem tengjast barnum.“

Nokkrum klukkustundum síðar sendu yfirvöld í Tíról frá sér fréttatilkynningu í gegnum almannatengsladeild héraðsins. Þar voru allt önnur skilaboð send út en þau sem Luckner-Hornischer tjáði á fundinum. 

„Það er nokkuð ólíklegt, frá læknisfræðilegu sjónarhorni, að gestir barsins hafi smitast,“ var haft efitr Luckner-Hornischer í tilkynningunni.

Hér má sjá skíðaþorpið Ischgl hvar 6.000 eru taldir hafa …
Hér má sjá skíðaþorpið Ischgl hvar 6.000 eru taldir hafa smitast af kórónuveirunni. AFP

Spýttu ping pong-kúlum í drykki annarra

Um 10.000 ferðamenn dvöldu í Ischgl, sem er lítið fjallaþorp, á þessum tíma. Kitzloch-barinn var svo fullur af fólki að starfsfólk blés í flautur til að komast í gegnum mannfjöldann. Margir hverjir léku leik þar sem þeir spýttu út úr sér ping pong-kúlum í drykki annarra gesta. Barnum var einungis lokað þegar allir starfsmennirnir höfðu greinst smitaðir. Annars staðar í Ischgl fengu ferðamenn að halda uppteknum hætti, skíða og skemmta sér. 

Snemma í mars voru íslensk heilbrigðisyfirvöld þau fyrstu sem vöruðu austurríska kollega sína við útbreiðslu veirunnar. Íslensku yfirvöldin sögðu að allt liti út fyrir að á annan tug Íslendinga hefði smitast í Ischgl. Fréttamiðillinn Guardian hefur síðar fullyrt að 16 Íslendingar hafi smitast í Ischgl. 

Gögnin sem AFP hefur séð sýna fram á að embættismenn hafi frekar tekið mark á athugasemdum tveggja Íslendinga, sem töldu sig mögulega hafa smitast í flugvélinni á leiðinni til Íslands og því ekki í Ischgl, en viðvörun íslenskra heilbrigðisyfirvalda. 

„Með því getum við komið Ischgl úr eldlínunni“

Í einu tölvupóstsskeyti til embættismanns í Tíról skrifaði héraðsstjórinn Markus Maass að mikilvægt væri að þessar vangaveltur ferðamannanna kæmu fram í fréttatilkynningu ef það þætti viðeigandi. 

„Með því getum við komið Ischgl úr eldlínunni,“ skrifaði Maass. 

Opinber fréttatilkyning frá yfirvöldum í Tíról bar svo heitið „Íslenskir gestir í Tíról smituðust líklega af kórónuveirunni í flugi á leið sinni heim“. 

Frekari gögn sýna fram á hversu áhyggjufull stjórnvöld í Tíról voru um möguleg neikvæð áhrif sem smitin gætu haft á orðspor héraðsins. Tölvupóstur sem Maass skrifaði eftir að íslensk yfirvöld höfðu varað við mögulegri útbreiðslu sýnir hans viðbrögð við hugmyndum um að deila þeim upplýsingum áfram. 

„Við erum að reyna að láta lítið á okkur bera,“ skrifar Maass. 

Fjórir lögðu fram kæru

Þegar smitfjöldi fór að aukast verulega í Ischgl tilkynntu stjórnvöld í Austurríki algjöra lokun Ischgl hinn 13. mars og fengu ferðamenn einungis nokkrar klukkustundir til að yfirgefa svæðið, sex dögum eftir að fyrsti barþjónninn greindist smitaður. 

Á meðal gagnanna sem fréttamenn AFP hafa séð eru bréf sem tilkynna fjórum einstaklingum, þar á meðal Maass og Werner Kurz, bæjarstjóra Ischgl, að þeir séu nú til rannsóknar grunaðir um að hafa stefnt fólki í hættu.

Stjórnvöld í Tíról hafa hafnað beiðnum austurrískra miðla um viðbrögð við nýjustu vendingum. Fjórir einstaklingar lögðu fram kærur í síðasta mánuði vegna útbreiðslunnar í Ischgl, þar á meðal er fjölskylda manns sem lést úr Covid-19 og er sagður hafa smitast í Ischgl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert