„Mér líður frábærlega!“

Rúmar þrjár vikur eru til kosninga.
Rúmar þrjár vikur eru til kosninga. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti stefndi saman hundruðum fagnandi stuðningsmanna fyrir utan Hvíta húsið í dag. Gaf hann um leið til kynna að kosningaherferð hans væri hafin að nýju, níu dögum eftir að hafa greinst með kórónuveirusmit.

„Mér líður frábærlega!“ fullyrti Trump þar sem hann steig út á svalir Hvíta hússins og tók af sér grímuna til að ávarpa þá sem saman voru komnir, flestir þeirra með einkennandi rauða MAGA-derhúfu. Á sama tíma þótti lítið bera á því að viðstaddir gættu fjarlægðar sín á milli.

Sjá mátti plástra á handarbaki forsetans þar sem hann ávarpaði …
Sjá mátti plástra á handarbaki forsetans þar sem hann ávarpaði stuðningsmenn sína af svölum Hvíta hússins í dag. AFP

Fjölmennar samkomur fram undan

„Farið út og kjósið – og ég elska ykkur,“ tjáði forsetinn þeim, sem kölluðu til baka á móðurmálinu: „USA“ og „Four more years“, og sýndu þannig fram á ættjarðarást sína og vilja til þess að Trump gegni embætti forseta í fjögur ár til.

Ekki er víst að þeim verði að ósk sinni, enda hefur forsetinn gefið talsvert eftir í fylgiskönnunum að undanförnu, en rúmar þrjár vikur eru til kosninga vestanhafs.

Trump hyggst halda fjölmennar samkomur stuðningsmanna á næstunni, í Flórída á mánudag, í Pennsylvaníu á þriðjudag og loks í Iowa á miðvikudag.

Frá samkomunni í dag. Trump hyggst halda stærri samkomu í …
Frá samkomunni í dag. Trump hyggst halda stærri samkomu í Flórída á mánudag. AFP

Til marks um skeytingarleysi

Mótframbjóðandinn Joe Biden hefur sagt þetta til marks um skeytingarleysi forsetans, að stefna saman fjölda manns í miðjum heimsfaraldri. Trump hefur gefið lítið fyrir slíkar áhyggjur og heldur því fram að Bandaríkin séu að sigra í baráttu við útbreiðslu faraldursins.

„Ég vil að þið vitið að þjóðin okkar mun sigra þessa hræðilegu Kínaveiru,“ sagði forsetinn í dag. „Hún mun hverfa. Hún er að hverfa.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert