Krepptir hnefar í skothelt gler

Kristinn Hrafnsson, ritstjóri Wikileaks.
Kristinn Hrafnsson, ritstjóri Wikileaks. AFP

„Það eru nokkrir dagar síðan ég kom til Íslands eftir að hafa varið heilum mánuði í réttarsal í London. Hef átt í mesta basli með að koma hausnum á mér utan um þá skefjalausu grimmd sem ég varð vitni að. Hef ekki náð enn að komast að kjarna þess viðbjóðs sem er í gangi undir holu og ógeðfelldu yfirskini sýndarmennsku réttlátrar málsmeðferðar í svokölluðu réttarríki,“ skrifar Kristinn Hrafnsson rit­stjóri Wiki­leaks á facebooksíðu sína. 

Kristinn var viðstaddur rétt­ar­höld um framsal stofnanda Wikileaks, Ju­li­ans Assange, til Banda­ríkj­anna í Lundúnum. Hann á yfir höfði sér allt að 175 ára langa fang­elsis­vist í Bandaríkjunum fyr­ir njósn­ir.

„Allar staðreyndir voru lagðar á borðið. Það á að slátra manni fyrir að upplýsa um grimmdarverk og glæpi. Fyrir að opinbera sannleikann. Ég tók þátt í þessum verkum sem Julian Assange er ákærður fyrir og leit á það sem blaðamennsku til að þjóna þeim æðstu gildum sem felast í því sem ég gerði að lífsstarfi,“ skrifar Kristinn. 

Frá mótmælum fyrir utan réttarhöldin í byrjun september.
Frá mótmælum fyrir utan réttarhöldin í byrjun september. AFP

Réttlæti hinnar snyrtilegu og hvassbrýndu fallaxar

Hann segist ekki ætla að gefast upp, of mikið sé í húfi, en hann hafi verið vanmáttugur og orðlaus.

„Vini mínum Craig Murray líður eins. Hann bloggaði daglega úr réttarsal þar sem hann sat fyrir ofan mig á svölunum sem kallast „public gallery“. Þangað fengu bara fimm að komast á hverjum degi, pabbi Julians, bróðir hans, frændi og frænka og einstaka stuðningsmaður. Líklegast þykir mikil gæska í því fólgin að hleypa ættingjum að aftökustaðnum þar sem lífið er tekið af fólki undir formfestu og réttlæti hinnar snyrtilegu og hvassbrýndu fallaxar,“ skrifar Kristinn. 

Stofnandi Wikileaks, Julian Assange.
Stofnandi Wikileaks, Julian Assange. AFP

Hann vonar að hann komi hugsunum sínum betur í orð þegar reiðin dvínar. 

„Það var lítið sem ekkert sem við Julian gátum rætt þennan mánuð í réttarsalnum. Á lokastundu kvaddi ég hann með því að leggja krepptan hnefann utan á skothelda glerið sem aðskildi mig og hann, fangann í búrinu, fyrir að upplýsa um stríðsglæpi, pyntingar og ógeð. Hann lagði hnefann á móti mínum fyrir innan þykkt glerið. Orðlaus tenging.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert