Fleiri en hundrað þúsund mótmæltu í dag

Tæplega 100 manns voru handtekin á mótmælunum í dag.
Tæplega 100 manns voru handtekin á mótmælunum í dag. AFP

Yfir 100 þúsund manns mótmæltu á götum Minsk, höfuðborgar Hvíta-Rússlands, í dag. 

Svetl­ana Tsik­anovskaja, leiðtogi hví­trúss­nesku stjórn­ar­and­stöðunn­ar, gaf forseta landsins, Alexander Lúkasjenkó, tveggja vikna frest til að segja af sér, binda enda á lögregluofbeldi og frelsa pólitíska fanga, annars yrðu víðtæk verkföll í landinu. 

Fresturinn rann út í dag.

Lögreglumenn beita táragasi á mótmælanda í miðborg Minsk í dag.
Lögreglumenn beita táragasi á mótmælanda í miðborg Minsk í dag. AFP

Lögreglan beitti táragasi til að dreifa mannfjöldanum og tæplega 100 manns voru handtekin samkvæmt heimildum frá mannréttindasamtökunum Vesna. 

Í myndböndum og á myndum sem dreift hefur verið á samfélagsmiðlum má sjá rútur með öryggisvörðum vopnuðum járnskjöldum koma niður í miðborg Minsk.

Beðið um stuðning leiðtoga

Fjölda lestarstöðva í miðborginni var lokað til að reyna að koma í veg fyrir mótmælin og aðgengi að netinu var takmarkað.

Tsik­anovskaja flúði landið eftir forsetakosningarnar sem fóru fram í ágúst. Hörð mótmæli hafa farið fram í landinu eftir kosningarnar en mótmælendur koma yfirleitt saman á sunnudögum. Lúkasjenkó sigraði kosningarnar en mótmælendur og stjórnarandstaðan í Hvíta-Rússlandi hafa sakað hann um kosningasvindl. Lúkasjenkó sór embættiseið fyrir luktum dyrum í lok september. 

Tsik­anovskaja hefur heimsótt leiðtoga ýmissa Evrópuríkja undanfarið og beðið um stuðning. 

Mótmælandi flaggar hvítrússneska fánanum á mótmælunum í Minsk í dag.
Mótmælandi flaggar hvítrússneska fánanum á mótmælunum í Minsk í dag. AFP
Yfir 100 þúsund manns mótmæltu á götum Minsk í Hvíta-Rússlandi …
Yfir 100 þúsund manns mótmæltu á götum Minsk í Hvíta-Rússlandi í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert