Tyrkneskar rætur draumateymisins

Á bak við nýtt bóluefni sem er í sam­eig­in­legri þróun hjá lyfja­fyr­ir­tæk­inu Pfizer og líf­tæknifyr­ir­tæk­inu Bi­oNTech er stór hópur fólks. En þau sem leiða þessa þróun eiga það sameiginlegt að vera innflytjendur. Hjónin sem stofnuðu og stýra BioNtech eru börn tyrkneskra innflytjenda í Þýskalandi og Kathrin Jansen sem stýrir rannsóknarstarfinu hjá Pfizer er dóttir flóttamanns frá Austur-Þýskalandi.

Greint hefur verið frá því að nýja bóluefnið  hafi í 90% til­vika komið í veg fyr­ir Covid-19-smit í þriðja fasa lyfjaþró­un­ar­inn­ar.

Yfirlýsing þar að lútandi var birt í gær á sama tíma og kórónuveirufaraldurinn geisar um alla heimsbyggðina. Veira sem hefur þvingað milljónir til að loka sig inni og efnahagskerfi heimsins eru verulega löskuð eftir margra mánaða baráttu við heimsfaraldur. Eitthvað sem engan óraði fyrir á þessum degi fyrir ári. Enda brugðust markaðir vel við fréttunum í gær og hækkuðu meðal annars hlutabréf í verði og verð á hráolíu. 

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, sem tapaði fyrir Joe Biden í forsetakosningunum í síðustu viku, fagnaði fregnunum af bóluefninu í gær líkt og aðrir en eitt af því sem nefnt er sem möguleg skýring eru viðbrögð hans og aðgerðir stjórnvalda í baráttunni gegn Covid-19.

Biden fagnaði einnig fréttunum en sagði að þetta breytti ekki því að nauðsynlegt sé að nota grímur áfram, halda fjarlægð og virða aðrar sóttvarnaaðgerðir næstu mánuði.

Fyrirtækin eiga von á því að geta sett 50 milljónir skammta af bólefninu á markað í ár og allt að 1,3 milljarða skammta á næsta ári. 

Grímur verða sennilega hluti af lífi heimsbyggðarinnar í einhverja mánuði …
Grímur verða sennilega hluti af lífi heimsbyggðarinnar í einhverja mánuði til viðbótar. AFP

Ef fer sem horfir gefur þetta heimsbyggðinni von um bjartari framtíð en fleiri bóluefni eru að nálgast lokatakmarkið – að gefa góða raun þannig að hægt sé að markaðssetja þau. 

Hjónin sem eru á bak við þýska líftæknifyrirtækið BioNTech eru afar róleg yfir þessu og eiga ekki von á að líf þeirra breytist mikið. Þau hafa tileinkað líf sitt baráttuni gegn krabbameini – að virkja ónæmiskerfið í baráttunni gegn krabbameinsfrumum.  

Fjórum sinnum verðmætara en Lufthansa

Dr. Ugur Sahin og eiginkona hans, dr. Özlem Türeci, stofnuðu BioNTech árið 2008, ásamt austurríska krabbameinslækninum Christoph Huberm en hjónin eru börn tyrkneskra innflytjenda í Þýskalandi. Nú eru hjónin meðal þeirra 100 efnuðustu í Þýskalandi samkvæmt Welt am Sonntag.

Uğur Şahin.
Uğur Şahin. Ljósmynd Wikipedia

Markaðsvirði BioNTech, sem er skráð á Nasdaq, var 4,6 milljarðar dala fyrir ári. Í gær hækkaði verð hlutabréfanna um 23,4% og er markaðsvirði þess nú tæpir 22 milljarðar dala, sem svarar til rúmlega þrjú þúsund milljarða íslenskra króna. Markaðsvirði félagsins er því fjórum sinnum meira en helsta flugfélags Þýskalands, Lufthansa. BioNTech var skráð á bandarískan hlutabréfamarkað fyrir ári og vakti í raun sáralitla athygli á þeim tíma. 

Í upphafi var fyrirtækið stofnað utan um rannsóknir og framleiðslu á sérstakri ónæmismeðferð gegn krabbameini, að virkja T-frumur sjúklinga í að ráðast gegn mótefnisvara krabbameinsfruma. Árið 2016 seldu hjónin fyrsta lyfjafyrirtæki sitt, Ganymed, fyrir 1,4 milljarða bandaríkjadala en þar unnu þau að því að breyta erfðalyklum þannig að ónæmiskerfið tæki þátt í baráttunni gegn krabbameini.

Spáin rættist fyrr en hann óraði fyrir

Özlem Türeci.
Özlem Türeci. Vefur BioNTech

Þegar kórónuveiran kom fyrst upp á yfirborðið í byrjun árs var BioNTech fljótt að breyta um stefnu í rannsóknum. Sahin segir að þegar hann las fyrst um Covid-19-farsóttina í kínversku borginni Wuhan í janúar hafi hann sagt við eiginkonu sína að í apríl verði nauðsynlegt að loka skólum í Þýskalandi vegna veirunnar. Spá hans rættist ekki að fullu því skólum var lokað fyrr í Þýskalandi eða í mars. Á þeim tíma hafði BioNTech, en um 1.300 starfa hjá fyrirtækinu, þegar komist töluvert á skrið við framleiðslu á árangursríkum lausnum fyrir bóluefni. 

Vísindin heilla meira en fyrirtækjarekstur

Der Spiegel fjallar um rannsóknir fyrirtækisins og þar kemur fram að Sahin farist það vel úr hendi að útskýra rannsóknir og störf fyrirtækisins án þess að flækja hlutina of mikið. Hann hefur kennt við háskólann í Mainz undanfarin 15 ár og er prófessor í krabbameinslækningum við skólann.

Það lifnaði yfir mörkuðum í gær er fregnir bárust af …
Það lifnaði yfir mörkuðum í gær er fregnir bárust af þróun bóluefnisins. AFP

Þrátt fyrir að rannsóknir í tengslum við bóluefnið taki nánast allan hans tíma í dag þá er hann enn að leiðbeina doktorsnemum. Því vísindin heilla hann meira en fyrirtækjarekstur – vísindamaður fyrst og fremst að eigin sögn, miklu frekar en forstjóri frumkvöðlafyrirtækis. 

Í mörg ár hefur hann verið álitinn einn af þeim sem leiða krabbameinsrannsóknir í heiminum og í byrjun var ónæmisfræði hans helsta viðfangsefni á sviði krabbameinslækninga. En eiga krabbamein og Covid-19 eitthvað sameiginlegt? Jú, að mati Sahin og það sé starf hans og annarra vísindamanna hjá BioNTech að finna lausnir á því hvernig hægt er að láta ónæmiskerfið vernda okkur fyrir ákveðnum veikindum. 

Höfuðstöðvar BioNTech eru í Mainz í Þýskalandi.
Höfuðstöðvar BioNTech eru í Mainz í Þýskalandi. AFP

Veiran sem veldur COVID-19 (Severe Acute Respiratory Syndrome Coronavirus 2, SARS-CoV-2) er kórónuveira, en aðrar kórónuveirur sem vitað er um í mönnum eru SARS-CoV, veira sem kom upp í Kína árið 2002 og er mjög skyld SARS-CoV-2, en hvarf aftur árið 2004, MERS-CoV, sem kom upp í Sádi-Arabíu árið 2012, og fjórar gerðir veira sem valda kvefi. Þessar veirur hafa líklega allar borist tiltölulega nýlega úr dýrum í menn að því er kemur fram í svari Valgerðar Andrésdóttur sameindaerfðafræðings á Vísindavef Háskóla Íslands

Kórónuveirur eru RNA-veirur og hafa RNA-erfðaefni sem er helmingi stærra en annarra þekktra RNA-veira (um það bil 30 kílóbasar). Þær hafa leiðréttingarensím sem gerir það að verkum að stökkbreytitíðni þeirra er ekki eins há og annarra RNA-veira.

Tæplega 1,3 milljónir hafa látist af völdum Covid-19 í heiminum.
Tæplega 1,3 milljónir hafa látist af völdum Covid-19 í heiminum. AFP

Líkt og fjallað er um í fjölmiðlum þessa dagana er helsti hvati þeirra að berjast gegn kórónuveirunni en um leið geta þau prófað Messenger RNA (mRNA), en RNA er ómissandi fyrir starfsemi gena. Þegar gen eru virk eru tekin af þeim RNA-afrit, svokallað mRNA, sem síðan eru notuð sem nokkurs konar mót við myndun prótína.

„Þá ákvarða hver þrjú kirni mRNA-sameindar stöðu einnar amínósýru í prótíni. Það eru þó ekki amínósýrurnar sjálfar sem raðast á RNA-mótið heldur eru þær fluttar þangað á litlum RNA-sameindum, svonefndum tRNA-sameindum, sem tengjast mótinu. Þetta gerist á frumulíffærum sem nefnd eru ríbósóm. Þar er amínósýrukeðja prótínanna smíðuð. Ríbósóm eru byggð úr prótínum og RNA. RNA kemur því víða við sögu þegar erfðaboðum er komið til skila,“ segir meðal annars í svari Guðmundar Eggertssonar á Vísindavef HÍ. 

Líkt og Magnús Gott­freðsson, sér­fræðing­ur í smit­sjúk­dóm­um á Land­spít­al­an­um og pró­fess­or við Há­skóla Íslands, bendir á í viðtali við mbl.is í gær þá er þetta í fyrsta skipti sem mRNA er nýtt í bóluefnisrannsóknum. Tæki sem margir telja að geti á byltingarkenndan hátt breytt öllu varðandi bóluefni í heiminum. 

Þrátt fyrir allt sem Sahin hefur náð fram á tæplega 20 ára ferli sem vísindamaður hefur það ekki breytt framkomu hans, ótrúlegri auðmýkt og geðþokka, segir Matthias Kromayer, stjórnarmaður í fjárfestingarfyrirtækinu MIG AG, sem hefur staðið fjárhagslega á bak við BioNTech allt frá stofnun þess árið 2008.

Hann segir að yfirleitt mæti Sahin á viðskiptafundi í gallabuxum og með hjólreiðahjálm undir hendi með bakpokann á bakinu. Undir þessa lýsingu taka fleiri viðmælendur breskra og þýskra fjölmiðla sem hafa fjallað um rannsóknir Sahin og Türeci að undanförnu. 

Læknisfræði var bernskudraumur beggja

Bernskudraumur Sahin var að læra læknisfræði og verða læknir. Hann gaf aldrei drauminn upp á bátinn og starfaði við háskólasjúkrahús í Köln og Homburg á námsárunum. Á sjúkrahúsinu í Homburg kynnist hann Türeci og deildu þau sömu ástríðu – læknarannsóknum og krabbameinslækningum. 

Türeci er dóttir tyrknesks læknis sem kom til Þýskalands sem innflytjandi. Faðir Sahin starfaði í verksmiðju Ford í Köln en hann kom til Þýskalands sem farandverkamaður líkt og svo margir Tyrkir á sjöunda áratug síðustu aldar. 

Türeci játaði í viðtali við Süddeutsche Zeitung að jafnvel á brúðkaupsdaginn hafi þau bæði gefið sér tíma til að vinna að rannsóknum sínum á rannsóknarstofunni. Þau hafi einfaldlega skroppið til sýslumanns og látið gefa sig saman og síðan haldið áfram að vinna að því loknu. 

AFP

Matthias Theobald, prófessor í krabbameinslækningum við háskólann í Mainz, sem hefur unnið með Sahin í 20 ár, segir að Sahin hafi aldrei haft nokkurn áhuga á athygli og upphafningu. Það sem skipti hann máli er að búa til lyf sem komi að notum í baráttunni við Covid-19. Þetta sé erfitt verkefni og kannski enn erfiðara en hann hefði getað ímyndað sér í upphafi árs. 

Sahin, sem er 55 ára gamall, fæddist í tyrknesku borginni Iskenderun, sem er skammt frá landamærum Sýrlands. Hann var fjögurra ára gamall þegar fjölskyldan flutti til Þýskalands. 

Á þessum tíma var litið á farandverkamenn (Gastarbeiter) sem tímabundið vinnuafl í Vestur-Þýskalandi og var mjög erfitt fyrir þá og fjölskyldur þeirra að fá þýskt ríkisfang. Þrátt fyrir að bæði Sahin og Türeci séu börn tyrkneskra innflytjenda er saga þeirra ólík. Hann þurfti að berjast fyrir bernskudrauminn – að verða læknir – sem er ekki eitthvað sem blasti við fyrir son verkamanns í bílaverksmiðju Ford í Köln. Türeci er aftur á móti fædd í Þýskalandi en faðir hennar kom til Þýskalands frá stórborginni Istanbul. 

Frá Austur-Þýskalandi til Manhattan

Kathrin Jansen.
Kathrin Jansen. Vefur Pfizer

Yfirmaður bóluefnisrannsókna Pfizer, Kathrin Jansen, er fædd í Þýskalandi en austan járntjaldsins. Fjölskylda hennar flúði yfir til Vestur-Þýskalands árið 1961 skömmu eftir að Berlínarmúrinn var reistur.

Til þess að þagga niður í Jansen á flóttanum var henni gefið lyf þannig að hún svæfi svo hún myndi ekki koma upp um þau þegar farið var yfir landamærin. Faðir hennar þóttist vera á leið í atvinnuviðtal og frænka hennar laug því að Jansen væri dóttir hennar. Áhugi Jansen á læknisfræði nær aftur til barnæsku en hún fékk ítrekað hálsbólgu og hósta. Draumurinn var að búa til lyf sem gæti látið henni líða betur. 

Að doktorsprófi loknu frá Philipps-háskólanum í Marburg flutti hún til Bandaríkjanna þar sem hún starfaði á sjúkrahúsum í Cornell og Massachusetts áður en hún flutti til Sviss til að starfa hjá Glaxo-sameindalíffræðistofnuninni í Genf. Þaðan flutti hún sig til lyfjarisans Merck þar sem hún kom að þróun bóluefnis við veiru sem myndar meðal annars vörtur og líkþorn (góðkynja æxli myndað úr þekjuvef). Þaðan lá leiðin til lyfjafyrirtækisins Wyeth þar sem hún vann við rannsóknir á lungnabólgu en Pfizer keypti Wyeth árið 2009. Frá því í mars hefur Jansen stýrt 650 manna teymi sem vinnur að þróun bóluefnisins. Starfi teymisins hefur hún að mestu stýrt frá íbúð sinni á Manhattan í gegnum Zoom.

Telegraph

Forbes

Guardian

Spiegel

TRT World

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert