Vill endurtalningu í tveimur sýslum Wisconsin

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti ætlar að fara fram á endurtalningu að hluta til í ríkinu Wisconsin þar sem andstæðingur hans í forsetakosningunum Joe Biden er sagður hafa unnið með 20 þúsund atkvæða mun.

Nokkrum klukkustundum fyrir lokafrest sagðist kosningateymi Trumps vilja endurtalningu í sýslunum Milwaukee og Dane, að sögn BBC. 

Embættismenn í ríkinu segjast hafa fengið greiddar þrjár milljónir dollara, eða um 410 milljónir króna, frá kosningateymi Trumps til að standa straum af kostnaðinum við endurtalninguna. Alls hefði það kostað kosningateymið 7,9 milljónir dollara, eða rúmlega einn milljarð króna, að láta telja aftur í öllu ríkinu.

Joe Biden.
Joe Biden. AFP

Trump neitar enn að viðurkenna ósigur í kosningunum og heldur áfram að setja fram órökstuddar fullyrðingar um „umfangsmikil“ kosningasvik.

Kosningateymi hans hefur höfðað ýmis mál í lykilríkjum til að hnekkja niðurstöðu úr talningu þrátt fyrir að yfirmenn sem sáu um kosningarnar segja engin sönnunargögn til staðar um að mistök hafi verið gerð eða að brögð hafi verið í tafli.

Joe Biden, verðandi forseti, er talinn hafa unnið kosningarnar með yfir 5,6 milljónum fleiri atkvæðum en Trump, eða 3,6 prósentustigum. Enn er þó ekki búið að telja öll atkvæði. Samkvæmt bandaríska kosningakerfinu sem sker úr um hver tekur við embætti forseta hefur Biden tryggt sér 306 kjörmenn en Trump 232.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert