Danir feta í fótspor Íslendinga

Svona lítur stafrænt ökuskírteini erkidanans Jens Peters Christensens út.
Svona lítur stafrænt ökuskírteini erkidanans Jens Peters Christensens út. Skjáskot/Kørekort

Frá og með deginum í dag geta Danir sótt sér ökuskírteini í farsímann. Samgönguráðuneyti Danmerkur gaf í dag út appið Kørekort, sem leysir danska bílstjóra undan því að þurfa að bera plastskírteinið við akstur.

Danir eru þriðja ríki Evrópu til að taka upp stafrænt ökuskírteini, en Norðmenn riðu á vaðið í fyrrahaust og Íslendingar fylgdu í fótsporið í vor. Stafrænu ökuskírteinin vöktu strax mikla lukku hér á landi, en innan við sólarhring eftir að þeim var hleypt af stokkunum höfðu 25.000 manns  um 12,5% ökufærra Íslendinga  sótt sér forritið. Nú er að sjá hvort Danir verði jafnfljótir að tileinka sér tæknina. 

Kynningin á þessari nýjung er reyndar látlausari í Danmörku en á Íslandi, en í stað blaðamannafundar þriggja ráðherra og ríkislögreglustjóra lét samgönguráðuneyti Danmerkur sér nægja fréttatilkynningu.

Þykir vel farið með milljarðinn

Í frétt danska ríkisútvarpsins segir að unnið hafi verið að verkefninu í tvö ár. Ólíkt stafrænum ökuskírteinum Íslands eru þau dönsku í sérstöku forriti í stað þess að vera innbyggð í „veski“ símans. Kostnaður við verkefnið nam engu að síður 45 milljónum danskra króna, tæpum milljarði íslenskra.

Spurður hvort það sé vel farið með fé skattborgaranna svarar Benny Engelbrecht samgönguráðherra: „Mér finnst það í ljósi þess að við fáum örugga lausn fyrir borgarana, en einnig fyrir stjórnvöld.“

Þeir 5.390 Danir sem urðu í fyrra að greiða sekt fyrir að hafa ekki ökuskírteinið meðferðis taka nýjunginni í það minnsta sennilega fagnandi. Eitt þúsund danskar krónur (22 þús. ISK) þarf sá að reiða fram sem gripinn er við akstur án þess að hafa skírteinið við höndina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert