Samþykktu „sögulegt“ frumvarp um afglæpavæðingu kannabis

Kannabis er löglegt í 15 ríkjum Bandaríkjanna auk Washington-umdæmis.
Kannabis er löglegt í 15 ríkjum Bandaríkjanna auk Washington-umdæmis. AFP

Fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykkti í vikunni „sögulegt“ frumvarp um afglæpavæðingu kannabisefnis í öllum 50 ríkjunum. Í frumvarpinu felst meðal annars ógilding sakfellinga vegna kannabissölu eða notkunar á alríkisstigi. 

Ólíklegt þykir að frumvarpið fari fyrir öldungadeildina þar sem repúblikanar eru í meirihluta, eftir því er BBC greinir frá. Frumvarpið var samþykkt í fulltrúadeildinni með 228 atkvæðum, en 164 greiddu atkvæði gegn því. 

Neysla kannabis er lögleg fyrir þá sem eru eldri en 21 árs í 15 ríkjum Bandaríkjanna auk Washington-umdæmis. Þá hafa 38 ríki lögleitt notkun kannabis í læknisfræðilegum tilgangi. Efnið hefur þó verið ólöglegt í alríkislögum frá 1970. 

Joe Biden, kjörinn forseti Bandaríkjanna, hefur áður lýst yfir vilja sínum til að lögleiða notkun kannabis, en hvorki repúblikanar í öldungadeild Bandaríkjaþings né Donald Trump Bandaríkjaforseti hafa sagst munu styðja frumvarpið. Til að frumvarpið geti orðið að lögum þarf öldungadeildin að samþykkja það og Bandaríkjaforseti að skrifa undir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert