BioNTech eykur framleiðslu bóluefnis um 50%

Glös með bóluefninu frá Biontech og Pfizer við kórónuveirunni.
Glös með bóluefninu frá Biontech og Pfizer við kórónuveirunni. AFP

Lyfjaframleiðandinn BioNTech hefur hækkað viðmið sitt um fjölda bóluefnaskammta sem framleiddir verða á þessu ári um rúmlega 50%, úr 1,3 milljörðum skammta í 2 milljarða skammta. Er þetta bæði vegna þess að hægt er að taka fleiri skammta úr hverju glasi og vegna aukinnar framleiðslugetu.

Bóluefni Pfizer og BioNTech var fyrsta bóluefnið til að koma á markað og hefur Evrópusambandið meðal annars tryggt sér kaup á 500 milljónum skömmtum. Hafa fyrstu fimm þúsund skammtarnir þegar komið til Íslands.

Í frétt Reuters er vísað í tilkynningu frá fyrirtækinu þar sem fram kemur að kaup BioNTech á lyfjaverksmiðju í Marburg í Þýskalandi frá Novartis muni auka framleiðsluna um 750 milljón skammta, en verksmiðjan mun taka til starfa við framleiðslu bóluefnisins í lok febrúar.

Þegar hefur fyrirtækið dreift 32,9 milljón skömmtum, en 50 milljón skammtar höfðu verið framleiddir í lok 2020.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert