Ólympíuverðlaunahafi greinir frá kynferðisofbeldi

Sofia Bekatorou árið 2004.
Sofia Bekatorou árið 2004. AFP

Grísk íþróttakona ber vitni um kynferðislegt ofbeldi sem hún varð fyrir á sínum tíma af hálfu fulltrúa í ólympíunefnd Grikklands í dag. Sofia Bekatorou stóð í tvígang á verðlaunapalli á Ólympíuleikum. Henni er nú þakkað fyrir að hafa veitt #MeToo-vakningunni brautargengi í Grikklandi en eftir að hún tjáði sig um ofbeldið hafa fleiri konur stigið fram og sagt frá kynferðisofbeldi. 

Bekatorou, sem er 43 ára gömul í dag var 21 árs þegar hún varð yfir kynferðislegu ofbeldi af hálfu mannsins, sem var háttsettur í íþróttahreyfingunni á þeim tíma, á hótelherbergi hans árið 1998. Bekatorou segir að hún hafi þagað yfir þessu svo hún gæti haldið áfram að keppa. Hún ákvað aftur á móti að greina frá þessu núna svo ungt íþróttafólk hefði þor til að greina frá sinni reynslu. 

Sofia Bekatorou.
Sofia Bekatorou. AFP

Hún greindi fyrst frá ofbeldinu í viðtali við Marie Claire-tímaritið í desember og endurtók ásakanir sínar á ráðstefnu á vegum hins opinbera í síðustu viku.

Siglingasambandið, sem hefur beðið Bekatorou um frekari upplýsingar varðandi ásakanir hennar áður en gripið verður til aðgerða af þess hálfu, segir í yfirlýsingu að það hafi farið fram á að varaforseti sambandsins, Aristeidis Adamopoulos, segi af sér strax. Adamopoulos sé maðurinn sem eigi hlut að máli.

Nokkrar aðrar íþróttakonur hafa stigið fram í kjölfar ásakana Bekatorou og um tugur kvenna hefur sakað prófessora við Aristóteles-háskólann í Þessalóniku um kynferðislega áreitni. Skólinn er ein fremsta menntastofnun landsins. 

Sofia Bekatorou hitti forseta Grikklands, Katerina Sakellaropoulou, að máli á …
Sofia Bekatorou hitti forseta Grikklands, Katerina Sakellaropoulou, að máli á mánudag. AFP

Gríska ólympíunefndin, ásamt ríkisstjórn landsins, hefur beðið alla þá sem hafa orðið fyrir slíku kynferðisofbeldi að stíga fram og segja frá. „Það er tímabært að uppræta þetta ofbeldi þeirra sem eru í valdastöðum gagnvart þeim sem eru í verri stöðu,“ segir forsætisráðherra Grikklands, Kyriakos Mitsotakis.

Ólympíunefndin hefur farið fram á innri rannsókn á málinu og óskað eftir því að Adamopoulos og Bekatorou beri vitni. 

Sofia Bekatorou var fánaberi gríska ólympíuliðsins í Ríó árið 2016.
Sofia Bekatorou var fánaberi gríska ólympíuliðsins í Ríó árið 2016. AFP

Adamopoulos sem var rekinn úr Nýja-Demókrataflokknum eftir að málið komst upp, neitar að hafa gert nokkuð af sér. 

Bekatorou hlaut gullverðlaun á Ólympíuleikunum í Aþenu árið 2004 og brons í Peking fjórum árum síðar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert