Markmiðið að enginn sæki um hæli

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur.
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur. AFP

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, segir það markmið sitt að enginn sæki um alþjóðlega vernd í Danmörku. Þetta sagði Frederiksen í umræðum í danska þinginu á föstudag eftir að Pia Kjærsgaard, fyrrverandi formaður Danska þjóðarflokksins, hafði kallað hana til andsvara. „Það er markmið okkar, en ég get auðvitað ekki gefið nein loforð um það,“ sagði Frederiksen.

Eins og greint var frá í Morgunblaðinu í vikunni voru umsóknir um alþjóðlega vernd í Danmörku 1.631 á nýliðnu ári eða 3 á hverja 10.000 íbúa. Miðað við höfðatölu voru umsóknir sexfalt fleiri á Íslandi.

Umsóknum um alþjóðlega vernd hefur fækkað verulega í Danmörku síðustu árin en dönsk stjórnvöld hafa markvisst unnið að því að gera fólki erfiðara fyrir að sækja um, og landið um leið að síður ákjósanlegum áfangastað fólks í leit að betra lífi.

Þannig voru umsóknirnar ríflega 21.000 í Danmörku árið 2015 þegar flóttamannastraumur frá Sýrlandi stóð sem hæst.

Ekki hafa færri sótt um vernd í Danmörku frá því farið var að halda utan um tölurnar í Danmörku með skipulegum hætti árið 1998, að því er fram kemur í umfjöllun Berlingske Tidende. Þrátt fyrir það hafa aldrei fleiri verið á flótta í heiminum, eða um 80 milljónir samkvæmt tölum frá Sameinuðu þjóðunum.

Engin áform eru um að hætta alfarið að taka við flóttamönnum, en samkvæmt tölum frá danska útlendingaráðuneytinu yfirgefa nú fleiri flóttamenn landið en koma.

Segir fyrri stjórnmálamenn hafa gert mistök 

Mette Frederiksen sagði stjórnmálamenn fyrri tíma hafa gert grundvallarmistök með því að gera of litlar kröfur til þeirra útlendinga sem hugðust koma til landsins. Nefndi hún sem dæmi kröfur um að þeir gætu framfleytt sjálfum sér og tileinkað sér „dönsk gildi“. „Við verðum að sjá til þess að ekki komi of margir til landsins okkar, annars getur samheldnin ekki þrifist. Samheldninni er þegar ögrað.“

Frederiksen tók við embætti forsætisráðherra sumarið 2019 eftir að vinstriflokkar unnu sigur í þingkosningum. Í kosningabaráttunni hafði flokkur hennar, Sósíaldemókratar, tileinkað sér að mestu stefnu Danska þjóðarflokksins í innflytjendamálum, svo mjög að vart mátti sjá á milli.

Hafði hún til að mynda boðað að ekki yrði hróflað við al­mennu reglu­verki í kring­um mál­efni flótta­fólks, sem komið var á að undirlagi Danska þjóðarflokksins til að stemma stigu við fjölg­un um­sækj­enda upp úr 2015.

Und­ir það falla regl­ur um sam­ein­ingu fjöl­skyldna, brott­vís­un þeirra sem ger­ast brot­leg­ir við lög, samn­ing­ar um rík­is­borg­ara­rétt og fleira. Sama gild­ir um hina svo­kölluðu „viðhorfs­breyt­ingu“ (d. para­dig­meskiftet) sem lög­fest var 2019 og kveður meðal ann­ars á um að öll land­vist­ar­leyfi til flótta­fólks skuli ein­ung­is vera tíma­bund­in.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert