Neyðarástand að skapast í Frakklandi

AFP

Helsti ráðgjafi franskra stjórnvalda í heilbrigðismálum telur að fljótlega verði að koma á útgöngubanni í Frakklandi vegna fjölgunar nýrra smita þar í landi. Ef af verður þá er það þriðja útgöngubannið á innan við ári, það er að fólk má ekki fara út fyrir hússins dyr nema brýna nauðsyn beri til, svo sem til að kaupa í matinn eða lyf. Eins að hreyfa sig og sú hreyfing er bæði takmörkuð við lengd og staðfestingu. 

Í rúma viku hefur gilt útgöngubann frá klukkan 18 til morguns en í nokkra mánuði hefur verið bannað að fara út að næturlagi. 

Jean-Francois Delfraissy, forystumaður vísindalegs ráðgjafahóps frönsku ríkisstjórnarinnar gegn veirunni, segir að neyðarástand ríki og að þessi vika skipti sköpum í baráttunni við Covid-19. 

Hann hvetur ríkisstjórnina til að grípa strax til aðgerða ekki síst vegna dreifingar nýrra afbrigða veirunnar í Frakklandi. Nú séu 7-9% allra smita sem eru staðfest í ákveðnum héruðum í Frakklandi af bráðsmitandi afbrigði sem fyrst greindist í Bretlandi. Erfitt sé að stöðva framgöngu þessa afbrigðis. 

AFP

Samkvæmt BBC sagði Delfraissy í viðtali við BFM-sjónvarpsstöðina í gærkvöldi að staðan í Frakklandi væri betri en víða annars staðar í Evrópu en líkir nýjum afbrigðum við aðra farsótt. Ef reglur verði ekki hertar eigi þjóðin eftir að standa frammi fyrir gríðarlega miklum erfiðleikum um miðjan mars. 

Áætlað er að franska ríkisstjórnin hittist á miðvikudag og ræði næstu skerf í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn. Yfirvöld hafa hingað til ekki viljað koma á allsherjarútgöngubanni og miðað frekar við kvöld og nætur því þannig sé hægt að halda skólum gangandi áfram. 

Nú greinast yfirleitt yfir 20 þúsund ný smit í Frakklandi á hverjum degi þrátt fyrir útgöngubann á kvöldin. 

Forsætisráðherra Frakklands, Jean Castex, hefur sagt að sóttvarnareglur geti verið hertar án tafar ef ástandið versnar enn frekar. Alls eru yfir 73 þúsund einstaklingar látnir af völdum Covid-19 í Frakklandi. 

Í gær voru reglur á landamærum Frakklands hertar enn frekar. Nú þurfa allir þeir sem koma til landsins frá ríkjum Evrópusambandsins að sýna fram á staðfestingu á að viðkomandi sé ekki með Covid-19 og vottorðið þarf að vera yngra en þriggja sólarhringa. Þetta gildir um þá sem koma með flugi eða ferjum. Þeir sem koma akandi, svo sem þeir sem fara yfir landamærin til vinnu, þurfa ekki að sýna fram á slík vottorð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert