Covid hrjáð Ítalía í pólitísku öngþveiti

Giuseppe Conte starfandi forsætisráðherra Ítalíu.
Giuseppe Conte starfandi forsætisráðherra Ítalíu. AFP

Forsætisráðherra Ítalíu, Giuseppe Conte, sagði af sér í dag í þeirri von um að halda umboði til stjórnarmyndunar og getað myndað nýja stjórn. Þetta gerði hann í kjölfar mikils óróa innan og gagnvart stjórnarmeirihluta hans. 

Ítalía er því án pólitísks leiðtoga á meðan hún glímir við Covid-19 faraldurinn sem hefur leikið landið grátt og tæplega 86 þúsund hafa látið lífið.

Viðræður framundan 

Conte mun áfram sinna nauðsynlegustu störfum forsætisráðherra á meðan forseti Ítalíu, Sergio Mattarella, sem sjálfur getur státað af þátttöku í fjölmörgum stjórnmálakreppum, ræðir við formenn stjórnmálaflokka frá og með morgundeginum. 

Hin fallna miðju-vinstri stjórn sem starfaði frá september 2019 hlaut náðarhöggið fyrr í þessum mánuði þegar fyrrverandi forsætisráðherrann Metteo Renzi dró flokk sinn úr stjórnarsamstarfinu. Flokkur hans, Viva Italia, er lítill en nógu stór til að fella stjórnina.

Milljarðar í lausu lofti

Conte sagði af sér áður en til atkvæðagreiðslu kom í þinginu sem útlit var fyrir að hann myndi tapa. Framundan er vinna hjá Conte við að reyna að mynda nýja stjórn með sterkari meirihluta. 

Afsögn Conte í dag hafði lítil sem engin áhrif á fjármálamarkaði Ítalíu en hún skilur eftir sig tómarúm í þriðja stærsta efnahag evrusvæðisins. Ákvörðun um það hvernig Ítalir eigi að verja milljörðum evra úr endurheimtarsjóði Evrópusambandsins hefur enn ekki verið tekin. Renzi hafði gagnrýnt 220 milljarða evra eyðsluáætlun Conte og sagt hana glatað tækifæri til þess að takast á við langvarandi vandamál í ítölsku samfélagi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert