Hélt að þetta yrði sitt síðasta

Hreyfill vélarinnar gjöreyðilagðist. Mikil mildi þykir að allir um borð …
Hreyfill vélarinnar gjöreyðilagðist. Mikil mildi þykir að allir um borð hafi sloppið án nokkurra meiðsla. Skjáskot/ABC

Flugvél United Airlines sem fara átti til Honolulu í Hawaii þurfti frá að hverfa og lenti í Denver eftir að hafa misst vélarafl. Raunar virðist einn hreyfill vélarinnar hafa nær gjöreyðilagst eins og sjá má á myndbandinu hér að neðan. Brak úr hreyfli vélarinnar féll til jarðar á víð og dreif um smábæ í Colorado-ríki.

Um borð var 231 farþegi og 10 voru í áhöfn og fór vélin í loftið í gær klukkan 13 að staðartíma í Denver en þurfti að nauðlenda í Denver um hálftíma síðar. Flugvélin er af gerðinni Boeing 777-200 og þykir mikil mildi að vélin hafi lent heilu og höldnu þrátt fyrir uppákomuna.

Í frétt ABC segir að bandaríska flugmálaeftirlitið og öryggis- og samgöngustofnun Bandaríkjanna muni nú taka að sér rannsókn slyssins.

Hélt að þetta yrði sitt síðasta

David Delucia var um borð í vélinni með eiginkonu sinni þegar sprengingar varð vart í vélinni.

„Flugvélin byrjaði að hristast ógurlega og við virtumst vera að missa flughæð. Það fyrsta sem ég hugsaði var að við myndum hrapa,“ sagði Delucia sem sat á vængsvæði og hafði útsýni yfir bilaða hreyfilinn.

Delucia segir að hann og eiginkona hans hafi gripið til þess örþrifaráðs að sækja vegabréf sitt og ökuskírteini til þess að bera mætti kennsl á lík þeirra á jörðu niðri. Blessunarlega var þess ekki þörf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert