Alvarleg staða í París

Gjörgæslupláss eru af skornum skammti í París og nágrenni.
Gjörgæslupláss eru af skornum skammti í París og nágrenni. AFP

Sjúkrahúsum í og í kringum París hefur verið gert að minnka umönnun fólks sem ekki er með Covid-19 um 40%, vegna neyðarástands sem skapast hefur á gjörgæsludeildum í Frakklandi.

Í Ile-de-France-héraði, þar sem París er höfuðborgin, eru 973 á gjörgæslu en samtals eru gjörgæslurýmin aðeins um 1.050 í þessu tólf milljóna manna héraði. Því verður að sögn stjórnanda í heilbrigðisþjónustunni að gæta sérstaklega að því að gjörgæsluplássin verði næg í framhaldinu.

„Staðan er mjög erfið,“ segir stjórnandinn við AFP.

Daglegur fjöldi smita á svæðinu rauk upp fyrir tveimur vikum og síðan hafa um 70 til 80 lagst inn á gjörgæslu á degi hverjum. Helmingi færri útskrifast á móti, þannig að ljóst er að plássin verða af verulega skornum skammti ef fram fer sem horfir.

Á sunnudaginn greindust 21.825 ný kórónuveirusmit í Frakklandi og 130 manns létust. Ef eins margir myndu smitast daglega á Íslandi væru þeir 120. Frönsk yfirvöld binda vonir við að ná að bólusetja tvo af hverjum þremur Frökkum fyrir lok júní.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert