Lögregla stöðvaði viðtöl NRK

Myndskeiðið sem milljónir Kínverja hafa deilt á Douyin, kínversku útgáfu …
Myndskeiðið sem milljónir Kínverja hafa deilt á Douyin, kínversku útgáfu samfélagsmiðilsins Tik Tok, og sýnir konur í hefðbundnum klæðum múslimska minnihlutahópsins úígúra dansa fyrir framan eina verslana H&M í Peking og deila bómull meðal vegfarenda. Kínverjar eru æfir yfir þeirri ákvörðun H&M að kaupa ekki bómull frá Xinjiang-héraðinu sem talið er að komi frá þrælkunarverksmiðjum kínverskra stjórnvalda. Skjáskot/Kínverski samfélagsmiðillinn Douyin

Kínverskt lögreglulið stöðvaði viðtöl Kjersti Strømmen, fréttaritara norska ríkisútvarpsins NRK í Peking, og samstarfsfólks hennar nú fyrir helgina þegar fréttateymið ræddi við viðskiptavini verslunarmiðstöðvarinnar Taikoo Li, sem selur einkum tískufatnað, á götu framan við verslunarmiðstöðina.

Umræðuefnið var sænska verslunarkeðjan Hennes & Mauritz, H&M í daglegu tali, sem neitað hefur að kaupa bómull fyrir verslanir sínar í Kína frá Xinjiang-héraðinu í Vestur-Kína vegna grunsemda stjórnenda H&M og alþjóðasamfélagsins um að fólk af múslimska minnihlutahópnum úígúrum vinni hráefnið þar í þrælkunarverksmiðjum, en í fyrra greindu vestrænir fjölmiðlar frá því að talið væri að um 80.000 úígúrar hefðu verið sendir úr svokölluðum „aðlögunarbúðum“ og „endurmenntunarstofnunum“ í þrælkunarverksmiðjur.

Sniðganga verslanir H&M

Hefur ákvörðun H&M vakið mikinn urg meðal kínversks almennings og verslanir keðjunnar í Kína verið sniðgengnar í kjölfar óvæginnar gagnrýni á kínverskum samfélagsmiðlum. Á miðlinum Douyin, sem er kínverska útgáfan af Tik Tok, hafa milljónir notenda, þar á meðal opinberar stofnanir, deilt myndskeiði sem sýnir konur, skrýddar hefðbundnum klæðum úígúra, dansa fyrir utan verslun H&M í Peking og afhenda vegfarendum bómullarhnoðra.

Þá hefur ungliðahreyfing kínverska kommúnistaflokksins, auk fjölda ríkisfréttastofa, deilt efni og myndum um lýðnetið, sem augljóslega er ætlað að hafa H&M að háði og spotti, svo sem mynd þar sem lagt er út af einkennisstöfunum H&M með orðasambandinu Huang Miu sem þýðir „hlægilegt“.

Ein margra mynda sem ganga um kínverska samfélagsmiðla H&M til …
Ein margra mynda sem ganga um kínverska samfélagsmiðla H&M til háðs, Huang Miu þýðir „hlægilegt“. Skjáskot NRK af ótilgreindum kínverskum samfélagsmiðli

Stjórnendur H&M gerðu á miðvikudaginn tilraun til að bera klæði á vopnin og endurvinna traust kínverskra viðskiptavina í yfirlýsingu þess efnis að Kínamarkaður væri keðjunni ákaflega mikilvægur. „Okkur er mjög í mun að endurvekja traust viðskiptavina okkar, samstarfsaðila og viðskiptafélaga í Kína,“ sagði þar meðal annars.

Kínversk stjórnvöld halda því statt og stöðugt fram að þau komi til móts við íbúa Xinjiang-héraðsins og leiði þá veginn til betra lífs með endurmenntunarstofnunum sínum sem haft er fyrir satt meðal stjórnvalda vestrænna ríkja að séu illræmdar fangabúðir þar sem úígúrum eru innrættar með valdi hefðir Han-menningar Kínverja í stað eigin siða og venja.

Allt slíkt sagði Zhao Lijian, upplýsingafulltrúi kínverska utanríkisráðuneytisins, rógburð einn og samsæri bandarískra og annarra vestrænna stjórnvalda í yfirlýsingu sem ráðuneytið sendi frá sér á mánudaginn. „Þeir [stjórnvöldin í vestri] reyna að hindra þróun Kína með því að koma óorði á Xinjiang og bómullarframleiðsluna þar, það er liður í samsæri þeirra,“ sagði Lijian.

Lögregla stöðvaði viðtöl á götu

Aðeins einn vegfarandi hafði rætt við Kjersti Strømmen og hennar fólk úti fyrir verslunarmiðstöðinni – en svo reyndar séð eftir öllu saman og beðið um að upptökunni yrði eytt – þegar hópurinn frá NRK var skyndilega umkringdur lögregluþjónum sem kröfðust þess að fá að skoða skilríki og aðra pappíra og ljósmynda þau gögn.

Tvær lögreglubifreiðar komu svo á vettvang og hringdu lögreglumenn á vettvangi fjölda símtala í yfirmenn sína. Að lokum var Strømmen og hennar fólki leyft að yfirgefa vettvang með þeirri umvöndun að gangstéttir höfuðborgarinnar væru til að ganga á, ekki taka viðtöl.

Kjersti Strømmen, fréttaritari NRK í Peking, hefur marga fjöruna sopið …
Kjersti Strømmen, fréttaritari NRK í Peking, hefur marga fjöruna sopið á ferlinum. Hér bregður hún upp gasgrímu í beinni útsendingu frá stúdentamótmælum í Hong Kong í nóvember 2019, eftir að táragashylki sprakk nánast framan í hana, og heldur áfram fréttaflutningi eins og ekkert hafi í skorist. Skjáskot/Fréttir NRK 18. nóvember 2019

NRK-hópurinn lét þó ekki deigan síga og flutti sig yfir í annan borgarhluta til að freista þess að fá kínverska vegfarendur til að segja sína skoðun á málefnum H&M.

„Lin Xiaoxi er klædd í Gucci-fatnað,“ segir Strømmen í frásögn sinni. „Hún segist jafnan kaupa það sem henni þyki fínt, en nú um stundir vilji hún ekki, ættjarðar sinnar vegna [n. av patriotiske grunner] kaupa merki frá fyrirtækjum sem sniðgangi bómull frá Xinjiang. Að minnsta kosti ekki fyrr en fyrirtækið biðjist afsökunar.“

Strømmen spyr Xiaoxi hvort henni sé kunnugt um rótina að tortryggni H&M í garð framleiðslunnar frá Xinjiang, en hún kveður nei við og segist ekkert vita um nauðungarvinnubúðir þar.

„Ég má hafa mína valkosti“

Aðrir viðmælendur NRK segja meðal annars að ólíðandi sé að erlendar verslunarkeðjur grípi til aðgerða sem byggjast á grunsemdum eða hviksögum, þær skuli þá leggja fram óyggjandi gögn máli sínu til stuðnings.

Maður nokkur, vel klæddur, vill ekki segja fréttafólkinu til nafns, en þykir helst til langt gengið í málinu, viðbrögð landa hans séu ýkt og yfirdrifin. „Mér þykir vænt um landið mitt, en þetta er fulllangt gengið,“ segir hann.

Gao er á leið í hádegismat með vinkonu sinni, en gefur sér tíma til að tjá NRK þá skoðun sína að úlfúðin í garð H&M hafi opnað augu fólks fyrir því að Kína eigi sér einnig sterk vörumerki sem gáfulegra sé að styðja en erlend merki. „Ég reiðist ekki yfir þessu, en rétt eins og fyrirtækið [H&M] má hafa skoðanir má ég hafa mína valkosti. Ég mun ekki vinna skemmdarverk á verslunum, eins og einhverjir hafa gert, en héðan í frá mun ég gefa kínverskum vörumerkjum meiri gaum,“ segir Gao og á lokaorð vegfarenda í Peking um afstöðu Kínverja gagnvart bómullarviðskiptum H&M í Kína.

NRK

NRKII (bresk stjórnvöld fordæma ofsóknir Kínverja í garð úígúra)

Yfirlýsing H&M

Yfirlýsing utanríkisráðuneytis Kína

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert