Lögreglukona ákærð fyrir manndráp

Mikil mótmæli hafa brotist út í Minnesota eftir atvikið.
Mikil mótmæli hafa brotist út í Minnesota eftir atvikið. AFP

Lögreglukona sem dró upp skammbyssu í stað rafbyssu og skaut ungan þeldökkann mann, Daunte Wright, til bana, hefur verið ákærð fyrir manndráp. Hún og lögreglustjóri lögreglunnar í Brooklyn, Tim Gannon, hafa bæði látið af störfum í kjölfar atviksins.

Frá þessu greinir BBC.

Mótmæli hafa staðið yfir í þrjá daga í Minnesota í kjölfar atviksins, sem varð í úthverfi Minneapolis. Lögreglukonan, Kim Potter, á að baki tuttugu og sex ára langan feril innan lögreglunnar.

Um þessar mundir standa yfir réttarhöld vegna morðsins á George Floyd og komu fjölskyldur þeirra Floyds og Wrights saman á mótmælum í dag og kröfðust þess að ofbeldi lögreglu gegn ungum þeldökkum mönnum fari að linna.

Á mótmælafundi segist frænka Wright, Naisha, eiga bágt með að trúa að um slys hafi verið að ræða. „Ég horfði á myndbandið eins og allir aðrir. Hún hélt ansi lengi í skammbyssuna,“ sagði hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert