Eiga von á 45 milljónum ferðamanna

Spænsk stjórnvöld eiga von á því að 45 milljónir ferðamanna …
Spænsk stjórnvöld eiga von á því að 45 milljónir ferðamanna muni sækja landið heim í ár. AFP

Spánverjar gera ráð fyrir því að taka á móti um 45 milljónum ferðamanna í ár. Það er ríflega helmingur þeirra ferðamanna sem þangað komu árið 2019, það er áður en farsóttin braust út.

Ferðamálaráðherra Spánar, Reyes Maroto, segir þetta varkára spá en um leið raunsæja. Spánn er annar vinsælasti áfangastaður ferðamanna í heiminum á eftir Frakklandi. Árið 2019 komu 83,5 milljónir erlendra ferðamanna til Spánar. 

AFP

Maroto segir að Spánn verði reiðubúinn til að taka á móti ferðamönnum fljótlega en hún tók þátt í að kynna nýja herferð í dag þar sem sjónum er beint að evrópskum ferðamönnum. Ekki síst breskum ferðamönnum sem hafa lengi verið helsta uppspretta tekna spænskrar ferðaþjónustu. Eins beina spænsk ferðamálayfirvöld sjónum sínum að ferðamönnum frá Frakklandi og Þýskalandi. 

Hún segir að evrópskt bólusetningarvottorð sé í þróun og það geri örugg ferðalög auðveldari. Stefnt er að því að það komist í gagnið í næsta mánuði.

Fastlega er gert ráð fyrir að Evrópusambandið muni rýmka þær reglur sem gilda varðandi ferðalög fólks frá ríkjum utan ESB 20. maí og því líklegt að breskir ferðamenn geti komið til Spánar að nýju. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert