Eilíf hringrás ofbeldis

Palestínskir múslimar við Al-Aqsa moskuna í Jerúsalem í vikunni. Þar …
Palestínskir múslimar við Al-Aqsa moskuna í Jerúsalem í vikunni. Þar safnast mikil mannfjöldi saman daglega. AFP

„Þetta er að stigmagnast, sem er mikið áhyggjuefni,“ segir Magnús Þorkell Bernharðsson sagnfræðiprófessor og sérfræðingur í málefnum Mið-Austurlanda, um ástandið sem ríkir í Ísrael og Palestínu. Um 60 manns eru látnir og hundruð hafa særst vegna átakanna á milli Ísraela og Palestínumanna.

„Í sjálfu sér er þetta ekkert nýtt þannig séð heldur er þetta sama stef og hefur verið lengi,“ segir Magnús.

Hann segir ofbeldið sem sagt ekki nýtt af nálinni heldur hafi farsímar og önnur tækni leitt til þess að heimsbyggðin sjái ofbeldið betur frá sjónarhorni þolenda. „Svipaðir atburðir hafa átt sér stað til dæmis 1987, 2000, 2006 eða 2014. Núna er samhengið í Ísrael hins vegar öðruvísi,“ segir Magnús og nefnir þá viðvarandi stjórnarkreppu landsins sem ástæðu. Hann segir mikið stjórnleysi vera í Ísrael þar sem enginn hefur náð að mynda starfhæfa ríkisstjórn en þingkosningar fóru fram í Ísrael í fjórða sinn á tveimur árum 23. mars síðastliðinn.

Magnús Þorkell Bernharðsson er einn helsti sérfræðingur Íslands í málefnum …
Magnús Þorkell Bernharðsson er einn helsti sérfræðingur Íslands í málefnum Mið-Austurlanda. Ljósmynd/Williams College

Þungamiðjan stjórnarkreppa Ísraels

„Þetta sýnir hversu miklar breytingar hafa átt sér stað í ísraelskum stjórnmálum. Annaðhvort var þetta bara Verkamannaflokkurinn eða Likud-flokkurinn en núna er þetta orðið svo fjölbreytt landslag,“ segir Magnús og bætir við að þjóðin sjálf skiptist einnig í margar ólíkar fylkingar.

„Sú fylking sem aukist hefur hvað mest eru þeir sem eru strangtrúaðir gyðingar, þar sem hugsunin er annaðhvort eða.“

Þetta segir Magnús að hafi magnað spennuna innan Ísraels og þar af leiðandi taki aðgerðir Ísraelshers nú mið af viðkvæmri stöðu innanlands. „Þungamiðjan í þessu öllu er hvað er að gerast innan Ísraels þar sem baráttan snýst í raun um hvað Ísraels er, ætti að vera og stendur fyrir.“

Börn eru meðal þeirra látnu.
Börn eru meðal þeirra látnu. AFP

Tímasetningin ekki tilviljun

Þá telur Magnús að tímasetningin sé ekki tilviljun þar sem mánaðarföstu múslima er að ljúka, Ramadan. „Þeir eru að undirbúa stærstu hátíð ársins eftir langa föstu sem fólk er þreytt eftir.“

Átökin hófust í kjölfar harkalegrar framgöngu ísraelsku lögreglunnar í og við al-Aqsa-moskuna í Jerúsalem í síðustu viku. „Þarna réðust þeir á fólk við bæn, á helgasta stað múslima, í þeirra helgustu borg, á helgasta tíma ársins. Þetta sýnir bara hversu langt ástandið er leitt.“

Telur þú að það stefni í alhliða stríð?

„Það er oft talað um að svona átök séu það sem komi til með að velta dómínóáhrifunum. Við tölum oft þannig en það hefur ekki alltaf gerst. Þetta hefur þó burði til þess,“ segir Magnús. Þá nefnir hann að Ísrael hafi nánast öll völd og geti því stjórnað atburðarásinni að ákveðnu leyti. „Ef þetta er að brjótast út í eitthvað meira þá verða þeir, úr því þeir hafa svo mikil völd, að axla ábyrgð.

Staðan er svo sannarlega skelfileg og svo margir sem hafa látið lífið, þar á meðal börn og saklaust fólk, vegna þessarar eilífu hringrásar ofbeldis,“ segir Magnús.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert