Stöðvi ofbeldið þegar í stað

Ísraelskir hermenn gera árás á Gaza-svæðið.
Ísraelskir hermenn gera árás á Gaza-svæðið. AFP

Ísraelar og Palestínumenn verða þegar í stað að stöðva ofbeldið sín á milli „til að koma í veg fyrir að átök breiðist út“ og hafi áhrif á fleiri almenna borgara.

Þetta sagði Josep Borrell, utanríkismálastjóri hjá Evrópusambandinu.

„Evrópusambandið hefur miklar áhyggjur af þeim fjölda almennra borgara sem hefur látist eða særst, en börn eru þar á meðal,“ sagði hann í yfirlýsingu. „Allir kraftar eiga að fara í að koma í veg fyrir dauðsföll almennings og stuðning við að draga úr spennu á svæðinu.“

Yfirlýsingin var gefin út eftir að Ísraelar og Palestínumenn héldu áfram átökum sín á milli eftir ofbeldi um helgina við moskuna Al-Aqsa í borginni Jerúsalem.

Josep Borrell.
Josep Borrell. AFP

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði að erindreki landsins muni ferðast til Mið-Austurlanda til að hitta leiðtoga Ísraels og Palestínu í von um að hægt verði að bæta ástandið.

Jean-Yves Le Drian, utanríkisráðherra Frakklands, sagði á þinginu í dag að alþjóðasamfélagið verði að gera allt sem í sínu valdi stendur til að koma í veg fyrir aukin átök á milli Ísraela og Palestínumanna.

„Það verður að gera allt sem hægt er til að forðast átök sem yrðu þau fjórðu sem slík á síðustu fimmtán árum sem hefðu í för með sér mörg dauðsföll,“ sagði hann.

Jean-Yves Le Drian.
Jean-Yves Le Drian. AFP

Frá því á mánudag hafa herskáir hópar á Gaza-svæðinu skotið yfir 1.000 eldflaugum að Jerúsalem, að sögn ísraelska hersins, sem hefur svarað með mörg hundruð loftárásum. Ein þeirra hæfði tíu hæða byggingu í dag, að sögn AFP-fréttastofunnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert