Hvað er í gangi í Ísrael?

Naftali Bennett (til vinstri), leiðtogi Yamina flokksins glottir í samtali …
Naftali Bennett (til vinstri), leiðtogi Yamina flokksins glottir í samtali við Yair Lapid, leiðtoga Yesh Atid. Báðir verða þeir forsætisráðherrar Ísrael á kjörtímabilinu, gangi samstarf þeirra og sexa annarra flokka eftir. AFP

Allar líkur eru á það að Naftali Bennett verði næsti forsætisráðherra Ísraels. Bennett er auðmaður sem hagnast hefur á tæknifyrirtæki sínu og segist vera lengra til hægri á hinum pólitíska ás en Benjamin Netanyahu. Bennett hefur hafnað hugmyndinni um Palestínuríki. 

Í umfjöllun BBC um Bennett segir að hann hafi löngum stefnt að embætti forsætisráðherra Ísraels. Allt útlit er fyrir að draumar hans verði bráðlega að veruleika þrátt fyrir að flokkur hans, Yamina – hægrisinnaður þjóðernisflokkur, hafi einungis fengið nokkur þingsæti í síðustu þingkosningum. 

Yamina var fimmti stærsti flokkurinn á þingi eftir kosningar, með sjö þingsæti. Bennett var engu að síður í lykilstöðu til samninga á milli tveggja valdablokka við úrslit þingkosninganna. 

Greint var frá því í gær á mbl.is að tekist hefði að mynda samsteypustjórn flokka sem hingað til hafa flestir verið í stjórnarandstöðu í Ísrael. Með því er endi bundinn á tólf ára valdatíð Benjamins Netanyahus, hins umdeilda leiðtoga Ísrael, sem hefur verið ákærður fyrir fjársvik, mútur og trúnaðarbrest í embætti forsætisráðherra. 

Benjamin Netanyahu, fráfarandi forsætisráðherra Ísrael. Hann hefur setið í stólnum …
Benjamin Netanyahu, fráfarandi forsætisráðherra Ísrael. Hann hefur setið í stólnum í tólf ár þrátt fyrir að hafa verið kærður fyrir fjársvik, mútur og trúnaðarbret í embætti forsætisráðherra. AFP

Átta flokkar úr öllu litrófinu

Flokkarnir sem koma að myndun samsteypustjórnarinnar eru átta. Þeir virðast eiga lítið sameiginlegt á grundvelli málefna, annað en viljann til að steypa Netanyahu af stóli. 

Viðræður höfðu staðið yfir í marga daga þegar tilkynnt var um myndun stjórnarinnar í gærkvöldi, skömmu áður en stjórnarmyndunarumboð Yair Lapid rann út. Lapid er leiðtogi Yesh Atid-flokksins sem er jafnframt stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn. 

Stóll forsætisráðherra mun falla þeim báðum, Bennett og Lapid, í skaut þannig að Bennett mun fyrst gegna embættinu og Lapid taka við því seinni hluta kjörtímabilsins. Bennett hafði áður fengið svipað tilboð frá flokki Netanyhus en ákvað að semja heldur við stjórnarandstöðuflokkana. 

Leiðtogar allra flokka sem mynda nújan meirihluta í Ísraelska þinginu. …
Leiðtogar allra flokka sem mynda nújan meirihluta í Ísraelska þinginu. Efri röð: Yair Lapid, lengst til vinstri. Hann er alla jafnan talinn leiðtogi hópsins. Þá Naftali Bennett, tilvonandi forsætisráðherra og fyrrum varnamálaráðherra Ísrael. Gidon Saar, leiðtogi New Hope og lengst til hægri Avigdor Lieberman, leiðtogi Israel Beiteinu. Neðri röð: Nitzan Horowitz, lengst til vinstri, leiðtogi vinstri flokksins Meretz. Þá Benny Gantz, leiðtogi miðjuflokksins Kahol Lavan. Mansour Abbas leiðtogi íslamska Raam flokksins og Merav Michaeli, leiðtogi HaAvoda verkamannaflokks. AFP

Ein kona er meðal leiðtoga í stjórninnni, Merav Michaeli, sem leiðir verkamannaflokkinn HaAvoda. Flokkurinn fékk sjö kjörna þingmenn og er jafn stór og flokkur Bennetts á þingi. 

Arabar með í stjórn 

Allir flokkarnir á þingi utan við flokk Netanyahus þurftu að koma saman til að mynda meirihluta, fleiri en 61 sæti á þingi. 

Enn hefur ekki verið kosið um meirihlutasamstarfið á þingi og hefur Netanyahu hvatt þingmenn „kjörna með hægri atkvæðum“ til að greiða atkvæði gegn því. Ekki liggur fyrir hvenær atkvæðagreiðslan fer fram en ekki er búist við henni á allra næstu dögum. 

Meðal flokka sem taka  þátt í samstarfinu er Arabíski íslamista Raam flokkurinn. Leiðtogi hans er Mansour Abbas. Samstarf þess flokks við flokk Bennetts er eitthvað sem margir töldu ómögulegt.

Þetta er í fyrsta sinn sem Ísraelskir arabar taka þátt í meirihlutasamstarfi í áratugi. Haft er eftir Abbbas á fréttaveitu AFP að ákvörðunin um þátttöku hafi verið erfið og tekist hafi verið á í við samningaborðið. „Það var mjög mikilvægt að komast að niðurstöðu,“ sagði hann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert